Norskir bændur vilja helst íslenskt hey

Norskir bændur óska eftir íslensku heyi þar sem erfitt verður …
Norskir bændur óska eftir íslensku heyi þar sem erfitt verður að finna annars staðar hey sem uppfyllir gæðakröfur. Miklir þurrkar eru í Skandinavíu. mbl.is/Styrmir Kári

Íslenskt hey er vænlegasti kosturinn til innflutnings í þeirri stöðu sem upp hefur komið vegna mikilla þurrka í Noregi, segir Lars Petter Bartnes, formaður norsku bændasamtakana Norges Bondelag, í samtali við mbl.is. Hann segir stöðu norskra bænda mjög erfiða og fagnar áhuga íslenskra bænda á því að selja hey til Noregs.

Vegna umfangsmikilla þurrka í Noregi eiga þarlendir bændur erfitt með að framleiða nægilegt magn af heyi. „Kornrækt er í alvarlegum vandræðum, vandamálið í fóðurframleiðslu verður bráðum mjög alvarlegt og bændur sem hafa fé sjá fram á að senda hluta dýra sinna til slátrunar vegna fóðurskorts,“ segir Bartnes.

Samkvæmt formanninum er þegar ljóst að tekjutap norskra bænda verður gríðarlegt og er veruleg hætta á gjaldþroti margra bænda í Noregi.

Lars Petter Bartnes, formaður Norges Bondelag.
Lars Petter Bartnes, formaður Norges Bondelag. Ljósmynd/Norges Bondelag

Umfangið óljóst

Bartnes segir norsk yfirvöld hafa gripið til aðgerða sem almennt einfalda innflutning á heyi með því að fella niður tolla og tók sú ákvörðun gildi í gær. Þó telja bæði yfirvöld og norsku bændasamtökin mikilvægt að gæði fóðurs séu varðveitt, sérstaklega þegar litið er til heilsufarlegra þátta eins og smithættu, að sögn formannsins.

„Ef innflutningur hefst frá til að mynda Austur-Evrópu er aukin hætta á að mjög alvarlegir sjúkdómar berist til landsins. Ísland er heppilegri viðskiptaaðili að þessu leyti,“ staðhæfir formaðurinn.

Hefðbundin lausn á heyskorti hefur verið að flytja inn hey frá Svíþjóð og Finnlandi að sögn Bartnes. Hins vegar eru þurrkar þar líka og einnig í Danmörku. „Við verðum þess vegna að finna ný lönd sem við getum keypt hey frá. Lönd sem búa yfir heilsufarslegu öruggu fóðri,“ segir hann.

„Það eru enn þá tveir mánuðir eftir í sprettutíðinni og ef við fáum ágætisrigningu á næstu tíu dögum verður hægt að framleiða talsvert af fóðri. Veðurspár gera hins vegar ráð fyrir áframhaldandi hlýindum og þurrviðri,“ segir Bartnes og telur þess vegna of snemmt að álykta um hvert endanlegt umfang fóðurskortsins verður.

Margir vilja selja hey til Noregs

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins auglýsti á vef sínum 4. júlí síðastliðinn eftir íslenskum bændum sem hafa áhuga á að selja hey til Noregs. Miðstöðinni hafði borist beiðni frá tengilið bænda í Suður-Noregi sem bað um allt það hey sem íslenskir bændur kunna að hafa til sölu.

Guðfinna Harpa Árnadóttir, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, segir í samtali við blaðamann að mikill áhugi hafi verið meðal íslenskra bænda á útflutningi til Noregs og að mjög margir hafi þegar haft samband vegna málsins.

Hún segir þörfina í Noregi mikla, en bendir jafnframt á að það sé ýmislegt sem þurfi að huga að í þessu samhengi meðal annars að ekki verði flutt út hey af svæðum sem eru að kljást við sjúkdóma.

„Samkvæmt minni upplifun er góð og mikil hefð fyrir því að Íslendingar og Norðmenn aðstoði hvorir aðra bæði hvað varðar landbúnað og á öðrum sviðum. Það er gott að heyra að það sé mikill vilji meðal íslenskra bænda fyrir því að útvega hey,“ segir Bartnes.

Illa sprettur á ökrum vegna vætuskorts.
Illa sprettur á ökrum vegna vætuskorts. Ljósmynd/Norges Bondelag
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert