Mun loks fara að sjást til sólar

Úrkoma er eitt algengasta orðið sem heyrst hefur í veðurfréttum …
Úrkoma er eitt algengasta orðið sem heyrst hefur í veðurfréttum undanfarnar vikur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Búast má við vindi úr austan- og norðaustanátt í dag, allt að 8-15 metrum á sekúndu, en hvassast verður syðst. Víða verður dálítil væta framan af morgni, en stytta mun fljótlega upp sunnan- og austanlands.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar. Segir þar að á morgun snúist vindur í norðanátt og þá létti til á sunnan- og vestanverðu landinu. Muni þá loks fara að sjást til sólar á þeim slóðum.

„Þessari, fyrir íbúa Suður- og Vesturlands, kærkomnu veðurbreytingu veldur hæðarhryggur sem nálgast af Grænlandshafi og hreyfist síðan inn yfir landið á þriðjudag. Þann dag er jafnframt búist við að sólin skíni víða á landinu, síst þó allra austast þar sem áhrifa fyrrnefnds hæðarhryggs gætir ekki,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurútlit það sem eftir lifir næstu viku er með skárra móti, yfirleitt hægir vindar, úrkomulítið og milt.

Rofa mun heldur til með morgninum og víða verða skúrir á sunnanverðu landinu í dag, en samfelld rigning norðvestan til fram á kvöld. Úrkomulítið verður norðaustanlands. Búast má við átta til 19 stiga hita, hlýjast verður á norðausturlandi í dag, en sunnanlands á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert