„Það er ný nálgun hjá okkur að mæla árangur þar sem ekki er unnið út frá efnahagslegum forsendum heldur félagslegum þáttum. Teknir eru út þættir sem við viljum mæla og varða líðan íbúa,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, sem nú er staddur í New York til að kynna þar á hliðarviðburði í tengslum við ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, High Level Political Forum (HLPF), notkun Kópavogsbæjar á Vísitölu félagslegra framfara (VFF).
„Mælingar VFF hjálpa til við að fylgjast með því hvernig til tekst að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Mælikvarðinn hefur verið notaður af einstaka þjóðum en aldrei af sveitarfélagi af okkar stærð og er því um frumkvöðlastarf að ræða,“ segir Ármann og bætir við að Kópavogsbær hafi í júní fengið viðurkenningu fyrir nýsköpun.
„Notkun vísitölunnar á að skila sér í að þjónustan við íbúana verði betri, verkefnin markvissari og þar með fjárhagsáætlanagerðin. Vísitalan er nýleg aðferð til þess að mæla styrkleika samfélagslegra innviða Kópavogs,“ segir Ármann sem er sáttur við þá þverpólitísku sátt sem ríkt hefur í bæjarstjórn Kópavogs í kringum verkefnið.
Auk fyrirlesturs Ármanns á samráðsfundi HLPF, sem fram fer síðdegis í dag, verða þar m.a. fyrirlestrar efnahags- og samfélagsmálaráðherra Paragvæ, fastafulltrúa Kosta Ríka hjá Sameinuðu þjóðunum og framkvæmdastjóra Social Progress Imperative-stofnunarinnar.
Ármann segir að Kópavogsbær hafi látið smíða sérstakan hugbúnað sem byggi á þáttum vísitölunnar og miklu magni af gögnum um fjölbreyttan rekstur bæjarins. Nálgun bæjarins hafi vakið athygli Social Progress Imperative-stofnunarinnar sem tekur saman mælikvarðann sem notaður er í VFF.
„Vinnan við undirbúning notkunar á vísitölunni hófst 2017 og fyrsta skorkortið var birt í vor. Niðurstöður mælinganna notum við í frammistöðumati á framkvæmdir og til að styrkja stýringu og skilvirkni opinberrar fjárfestingar,“ segir Ármann og bætir við að afraksturinn skili sér í aukinni velferð íbúa og betri nýtingu á skattfé íbúanna.
Kópavogsbær frumsýnir í dag myndband á fésbókarsíðu sinni um nálgun Kópavogsbæjar á notkun vísitölu félagslegra framfara.