Mæður veikra barna sendar heim

Verst er ástandið á sængurkvennagangi Landspítalans þar sem níu ljósmæður …
Verst er ástandið á sængurkvennagangi Landspítalans þar sem níu ljósmæður létu af störfum 1. júlí. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, segir að það kæmi sér ekki á óvart yrðu lög sett á yfirvinnubann ljósmæðra sem boðað hefur verið á miðvikudaginn. Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, segist ekki vita til þess að slík lög séu í bígerð. Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður segir slíka lagasetningu óæskilega. Fyrir henni þurfi bæði að vera almannahagsmunir og þjóðhagsleg rök.

Nú hefur um helmingur ljósmæðra sem starfa á Heilbrigðisstofnun Suðurlands sagt upp störfum, um 30 ljósmæður á Landspítalanum, ein á Selfossi og þrjár á Akranesi.

Hallfríður Kristín Jónsdóttir, Fríða, er ljósmóðir á fæðingarvakt Landspítalans. Hún segir í Morgunblaðinu í dag að versta ástandið sé á sængurkvennagangi, þar sem níu ljósmæður létu af störfum 1. júlí.

Ein birtingarmynd þess sé að mæður sem eru með börn á vökudeild, gjörgæsludeild nýbura, eru sendar heim af spítalanum. „Konur sem annars hefðu fengið að vera með krílunum sínum í nokkra daga,“ segir Fríða. Linda Kristmundsdóttir, framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs Landspítalans, segir að ef verði af yfirvinnubanninu muni Landspítalinn starfa áfram eftir þeirri neyðaráætlun sem tók gildi um síðustu mánaðamót þegar uppsagnir 12 ljósmæðra þar tóku gildi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert