Íslenska ríkið braut ekki gegn Agli Einarssyni með dómi í meiðyrðamáli sem hann höfðaði gegn konu árið 2012. Þetta kemur fram í úrskurði Mannréttindadómstóls Evrópu, sem kveðinn var upp í morgun.
Konan, Sunna Ben Guðrúnardóttir, hafði gagnrýnt tímaritið Monitor fyrir að slá Agli upp á forsíðu, en sagt að ekki væri um að ræða „árás á mann fyrir að segja eitthvað rangt, heldur fyrir að nauðga unglingsstúlku“ og gagnrýna mætti að „nauðgarar“ prýddu forsíður rita sem dreift væri um allan bæ.
Egill stefndi Sunnu fyrir meiðyrði og Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi ummæli Sunnu dauð og ómerk. Héraðsdómur taldi þó ekki sannað að Sunna hefði sakað Egil um nauðgun gegn betri vitund og var Agli gert að greiða eigin málskostnað. Hæstiréttur staðfesti síðar dóm héraðsdóms.
Egill undi ekki niðurstöðunni og skaut málinu, sem fyrr segir, til Mannréttindadómstólsins þar sem hann taldi brotið á rétti sínum til að sækja mál ef hann þyrfti sjálfur að bera málskostnað. Þessu hafnaði dómstóllinn, en í dómnum er sérstaklega tekið fram að Egill hafi ekki unnið fullnaðarsigur fyrir íslenskum dómstólum þótt orð Sunnu hafi verið dæmd dauð og ómerk. „Með framangreint í huga er ekki hægt að segja að innlendir dómstólar hafi tekið á deilumálinu um málskostnað á óeðlilegan hátt,“ segir í dómnum.