Sektir eða fangelsi reynist dýrið friðað

Hvalurinn var veiddur fyrir nokkrum dögum en erfðafræðirannsókn mun leiða …
Hvalurinn var veiddur fyrir nokkrum dögum en erfðafræðirannsókn mun leiða í ljós hverrar tegundar hann er. Ljósmynd/Hard To Port

Umdeilt dráp hvalsins sem talið er að gæti verið steypireyður gæti haft afleiðingar í för með sér fyrir hvalveiðifélagið Hval hf. reynist hvalurinn vera steypireyður, sem er alfriðuð tegund. Tekið var sýni úr hvalnum og mun greining á því ákvarða tegund dýrsins.

Að sögn sérfræðings í dýraverndunarlögum, sem rætt er við í Morgunblaðinu í dag, er lagaákvæði í íslenskum lögum þar sem segir að veiði á steypireyði varði við sektir og jafnvel fangelsi. 

„Þetta eru gömul lög og hefur líklegast aldrei áður reynt á þau,“ segir Árni Stefán Árnason, sérfræðingur á sviði dýraverndunarlaga. Í lagaákvæðinu, sem var uppfært árið 1973, segir að veiði á steypireyði varði við sektir og önnur viðurlög samkvæmt lögum nr. 26/1949 um hvalveiðar. Segir þar að brotið skuli varða við sektir og jafnvel fangelsi, ef sakir eru taldar miklar. „Þetta myndi teljast mikil sök, dráp á friðuðu dýri,“ segir Árni jafnframt. „Að mínu mati gildir þetta refsiákvæði, en ég tel það ekki munu hafa neitt að segja í þessu tilviki. Stjórnvöld munu ekki vilja fylgja þessu eftir, m.a. vegna sterkrar tengingar hvalveiða við ríkisvaldið.“

Hvalveiðar við landið hafa löngum verið umdeildar bæði innanlands og utan. Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, segir að þau hafi fundið fyrir miklum viðbrögðum í síðustu viku tengdum málinu og þá helst í formi tölvupósta og athugasemda á samfélagsmiðlum. „Við finnum reglulega fyrir slíkum bylgjum tengdum hvalveiðum, t.d. þegar þær hefjast á sumrin.“ Hún segir erfitt að reikna út áhrif atviks á við þetta á ímynd Íslands „Vanalega hafa þessar öldur jafnast út með tímanum en við vitum í raun ekki hvað mun gerast í þessu tilviki. Við munum taka stöðuna síðar í vikunni.“

Fengið mikla athygli erlendis

María Mjöll Jónsdóttir, deildarstjóri hjá upplýsinga- og greiningardeild utanríkisráðuneytisins, segir að ráðuneytið fylgist vel með allri umfjöllun um málið, í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Flestir stærstu miðlarnir hafa tekið málið upp, t.a.m. BBC, Telegraph og CNN.

„Við höfum fundið fyrir nokkrum áhuga hjá erlendum miðlum sem margir hverjir hafa tekið málið upp.“ Hún segir ráðuneytið svara öllum þeim fyrirspurnum er berist varðandi hvalveiðar. „Við höfum verið að koma afstöðu Íslands á framfæri og sérstaklega þar sem farið hefur verið með rangfærslur. Í þeim tilvikum höfum við upplýst fólk á hvaða grundvelli reglugerðin um hvalveiðar er gefin út. Það er mikilvægt að erlendir fjölmiðlar geri sér grein fyrir því að veiðar á steypireyðum eru bannaðar á Íslandi. Eins að málið sé tekið alvarlega hér á landi og verið sé að flýta greiningu.“

Að sögn Maríu hefur umfjöllunin og sömuleiðis fyrirspurnirnar að mestu komið frá enskumælandi löndum og þá helst Bandaríkjunum en einnig hefur gætt mikillar umræðu í Þýskalandi. Steypireyður hefur verið alfriðuð frá árinu 1966.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert