Engar nýjar tillögur fyrir samningafund í kjaradeilu ljósmæðra

Í gær fóru fram mótmæli á Austurvelli vegna kjaradeilu ljósmæðra.
Í gær fóru fram mótmæli á Austurvelli vegna kjaradeilu ljósmæðra. mbl.is/Árni Sæberg

Boðað hefur verið til fundar í kjaradeilu ljósmæðra klukkan hálfellefu í fyrramálið. Til stóð að halda næsta samningafund á mánudaginn en Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari ákvað að flýta fundinum í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin. Formenn samninganefndanna hafa ekki lagt fram nýjar tillögur til að leysa deiluna og því óvíst um hvað verður rætt á fundinum á morgun.

Samninganefnd ríkisins hefur fullt umboð

„Það er voða erfitt að segja fyrir fram um það hvað í rauninni fer fram og hvernig fundurinn fer ef maður veit svo sem ekki nákvæmlega hvað er verið að fara fjalla um,“ segir Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, í samtali við mbl.is.

Gunnar segir að samninganefndin hafi sama umboð á fundinum á morgun og hún hefur haft hingað til en að kröfur ljósmæðra séu töluvert umfram það sem samninganefndin geti samþykkt.

„Við höfum fullt umboð en það þýðir ekki að við þurfum að semja um hvað sem er. Við skrifuðum undir rammasamkomulag með aðilum vinnumarkaðarins [um] að við myndum á þessu samningstímabili halda okkur innan tiltekinna viðmiðunarmarka,“ segir Gunnar og bætir við að kröfur ljósmæðra fari yfir þau mörk sem nemur átján prósentustigum.

Hann segist þó vona til þess að fundurinn á morgun sé sá fundur sem leysi deiluna.

Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins.
Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins. mbl.is/Golli

Ljósmæður gefa ekki afslátt af sínum kröfum

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, segir að ljósmæður hafi ekki lagt neitt nýtt fram fyrir fundinn og það standi ekki til að gera það.

„Við höfum lagt fram okkar lægstu kröfur. Það hefur ekki komið neitt nýtt frá okkur eftir það og mun ekki gera það,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

Þá segist Katrín ekki hafa frétt af nýjum tillögum frá samninganefnd ríkisins.

„Ekkert sem við vitum af en auðvitað fögnum við því mjög að það sé búið að boða til fundarins fyrr og vonum auðvitað innilega, og höldum í vonina, að það komi eitthvað nýtt að borðinu sem geti landað samningi og klárað þetta,“ segir Katrín einnig.

„Við förum alla vega fullar bjartsýni á fundinn á morgun og vonumst til að fá vöfflur í lok dags,“ segir Katrín að lokum.

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra.
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra. mbl/Arnþór Birkisson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert