Þingflokkur Pírata hefur ákveðið að sniðganga hátíðarfund Alþingis sem fram fer á Þingvöllum í dag, en ástæða þess er að Piu Kjærsgaard, þingforseta danska þingsins, hafi verið boðið að ávarpa Alþingi á fundinum.
Segir í tilkynningu frá flokknum að óforsvaranlegt sé „að bjóða einum helsta höfundi og talsmanni útlendingaandúðar í Evrópu að ávarpa Alþingi á Þingvöllum á aldarafmæli fullveldis Íslendinga.“
Fram kemur að ákvörðunin hafi reynst flokknum erfið og að ekki hafi komið í ljós hver heiðursgesturinn yrði fyrr en við fréttaflutning í gær.
Fréttatilkynningu Pírata má í heild lesa hér að neðan:
„Þingflokkur Pírata hefur ákveðið að sniðganga hátíðarfund Alþingis sem fram fer á Þingvöllum í dag.
Ástæðan er óforsvaranleg ákvörðun um að bjóða einum helsta höfundi og talsmanni útlendingaandúðar í Evrópu að ávarpa Alþingi á Þingvöllum á aldarafmæli fullveldis Íslendinga. Engin hefð er fyrir því að erlendir gestir ávarpi þingfundi af þessu tagi og engin nauðsyn var því að bjóða Piu Kjærsgaard að ávarpa hátíðarfund á Þingvöllum. Hátíðarfundir eiga að efla samstöðu þjóðarinnar, ekki að verða vettvangur fyrir málsvara sundrungar.
Hátíðarhöld sem þessi eru vandmeðfarin á tímum uppgangs þjóðernishyggju um víða veröld. Það er sjálfsagt og eðlilegt að fagna tímamótum sem þessum en það er varhugavert að gefa þjóðernishyggju á nokkurn hátt undir fótinn við slík tilefni. Íslenska þjóðin á betra skilið, en að gælt sé við öfgaþjóðernishyggju í hennar nafni.
Piu Kjærsgaard var boðið á Alþingi vegna þess embættis sem hún gegnir.
Sú staðreynd að stofnandi eins mannfjandsamlegasta flokks Norðurlandanna sitji sem forseti danska þingsins er í sjálfu sér mikið áhyggjuefni.
Að utanþingsmanni sem hefur unnið jafn ötullega að því að ala á sundrungu, útlendingahatri og Pia Kjærsgaard hefur gert sé boðið heiðursávarp á hátíðarfundi sem sameina ætti okkur Íslendinga, burtséð frá trú okkar og uppruna er hneyksli.
Þingflokkur Pírata vill koma því á framfæri að þessi ákvörðun reyndist okkur erfið. Upphaflega stóð til að taka þátt í hátíðarhöldum og segja má að við höfum flotið sofandi að feigðarósi þar sem persóna heiðursgestsins varð okkur ekki ljós fyrr en við fréttaflutning í gær.
Grunnstefna Pírata býður okkur eftir sem áður að skipta um skoðun í ljósi nýrra upplýsinga og við getum ekki, samvisku okkar vegna, tekið þátt í því að heiðra manneskju sem ber hvorki virðingu fyrir manneskjum af öðrum uppruna en sínum eigin, né grunngildum allra heilbrigðra lýðræðissamfélaga. Með slíku er minningu um fullveldislög Íslendinga enginn greiði gerður.
Á þessum tímamótum óskum við Íslendingum til hamingju með áfangann og þökkum sömuleiðis öllum þeim sem komu að undirbúningi hátíðarhaldanna. Okkur þykir þetta leitt en við sáum okkur engan annan kost en að láta samviskuna ráða ferð.“