Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, er mættur á Þingvelli þar sem hátíðarfundur Alþingis fer fram í dag. Hann segir athöfnina á Þingvöllum í dag að sínu mati fyrst og fremst vera virðingarvott við fólkið sem færði Íslendingum fullveldið.
Aðspurður segist hann ekki taka afstöðu til þess hvort sniðganga þingflokks Pírata varpi skugga á hátíðarfundinn.
„Þingflokkar hafa tekið alls konar afstöðu í gegnum tíðina,“ segir Ólafur við blaðamann mbl.is.
„Á sínum tíma þá skrifaði ég doktorsritgerð um sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og þróun landsins frá því að hafa á engan hátt vald yfir eigin málum og þar til við fengum heimastjórn í upphafi síðustu aldar og öðlumst svo fullveldi 1918,“ segir Ólafur. Í ljósa þessarar miklu sögu segir hann 1. desember 1918 einn af stóru dögunum í sögu Íslands.
Ólafur segir Þingvelli hafa skipt miklu máli í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.
„Hér voru haldnir Þingvallafundir þar sem helstu kröfur sjálfstæðisbaráttunnar voru staðfestar og þjóðin hefur minnst merkra áfanga í sögunni á þessum stað, þannig að þegar ég kem hingað á þessum degi er mér fyrst og fremst hugsað til þessarar miklu sögu og þess fólks sem í áratugi, fyrst á 19. öld og svo á 20. öld, stóð í fararbroddi þessarar baráttu.
Það er mikil þakkarskuld sem við eigum við þetta fólk og mér finnst þessi athöfn hér í dag vera kannski fyrst og fremst virðingarvottur við þetta fólk sem skilar okkur fullveldi á sínum tíma,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson.