Meirihluti hreppsnefndar Ásahrepps hefur ákveðið að ráða Valtý Valtýsson í embætti sveitarstjóra, en hann hefur áður gegnt embætti sveitarstjóra Bláskógabyggðar. Ekki virðist hafa ríkt fullkomin sátt í hreppsnefndinni um ráðningaferlið og gerði minnihlutinn athugasemd við að aðeins einn af 19 væri boðaður í viðtal.
Þrír greiddu atkvæði með ráðningunni á meðan tveir sátu hjá.
Ágústa Guðmarsdóttir, fulltrúi E-lista sem er í minnihluta, segist í samtali við mbl.is ekki ósátt við ráðningu Valtýs, en að ferlið hafi mátt vera öðruvísi.
Í heild sóttu 20 einstaklingar um stöðu sveitarstjóra hreppsins, en einn dró umsókn sína til baka. Af þeim var aðeins einn umsækjenda boðaður í viðtal.
Minnihlutinn lagði fram bókun um málið á fundi nefndarinnar í gær. Þar kemur fram að rökin fyrir því að bjóða einungis einum umsækjenda í viðtal hafi verið þau að aðeins einn umsækjandi hefði áður gegnt starfi sveitarstjóra. Þetta segir minnihlutinn að sé rangt þar sem umsækjandinn Gunnólfur Lárusson hafi til ársins 2013 verið sveitarstjóri Langanesbyggðar.
Á fundi hreppsnefndar bar oddviti E-lista, Elín Grétarsdóttir, upp tillögu um „að lagt yrði raunverulegt mat á hæfni annarra umsækjanda og efstu aðilum boðið til viðtals,“ að því er fram kemur í fundargerð. Minnihlutinn gerði einnig athugasemd við ráðningasamning Valtýs sem fól í sér sex mánaða biðlaun, en fulltrúarnir telja biðlaunin ekki samræmast hagsmunum Ásahrepps.
Þá segir að tillögunni hafi verið hafnað af meirihlutanum, en jafnframt að fulltrúar E-lista óski „Valtý velfarnaðar sem sveitarstjóri Ásahrepps með ósk um gott og farsælt samstarf.“
„Við höfum ekki mikið út á ráðninguna að setja í sjálfu sér, enda erum við að fá öflugan sveitarstjóra með mikla reynslu til starfa. Hins vegar setjum við spurningamerki við ferlið. Það var aðeins einn af 19 boðaður í viðtal sem er svolítið sérstakt,“ segir Ágústa.