Beinlínis rangt að ekkert nýtt kæmi fram

Gunnar furðar sig á túlkun Katrínar á miðlunartillögu ríkissáttasemjara.
Gunnar furðar sig á túlkun Katrínar á miðlunartillögu ríkissáttasemjara. mbl.is/Eggert

„Það er mjög alvarlegt ef fulltrúi ljósmæðra túlkar hugmynd ríkissáttasemjara með þeim hætti að það sé ekkert í henni annað en gamli samningurinn,“ segir Gunnar Björnsson formaður samninganefndar ríkisins. Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, sagði í samtali við mbl.is eftir fund þeirra hjá ríkissáttasemjara að miðlunartillagan ríkissáttasemjara fæli ekkert meira í sér en samninginn sem ljósmæður hafa þegar fellt. „Það er beinlínis rangt,“ segir Gunnar.

Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari freistaði þess í dag að fá heimild samninganefnda ríkisins og ljósmæðra til þess að leggja fram miðlunartillögu sem fæli í sér að hnúti deilunnar, kröfu ljósmæðra um að aukin ábyrgð, aukið vinnuálag og menntun þeirra endurspeglist í launum þeirra, yrði vísað til þriggja manna gerðardóms.

Úttekt gerðardóms myndi skila sér í launasetningu

„Hnúturinn í deilunni snýst um þá kröfu ljósmæðra að aukin ábyrgð, aukið vinnuálag og, eftir atvikum, menntun þeirra, endurspegli ekki launasetninguna sem skildi,“ útskýrir Bryndís fyrir mbl.is. „Ég freistaði þess að fá að leggja fram miðlunartillögu þar sem þeim þætti deilunnar væri vísað inn í þriggja manna gerðardóm, sem ég myndi skipa, og væri hópur sérfræðinga sem myndi leggja mat á þetta. Að lokinni skoðun myndi það mat skila sér inn í launasetningu.“

Hún segir að samkvæmt miðlunartillögunni myndi áður felldur samningur ljósmæðra taka gildi þegar í stað, en að breyting yrði svo gerð í kjölfar úttektar gerðardóms.

Létt var yfir ljósmæðrum fyrir fundinn.
Létt var yfir ljósmæðrum fyrir fundinn. mbl.is/Hari

„Ljósmæður höfnuðu því að ég myndi leggja fram slíka tillögu,“ segir Bryndís. Hún segir það venjuna að sáttasemjarar hafi samráð við aðila um framlagningu miðlunartillögu og að ef önnur samninganefndin eða báðar styðji ekki að slík tillaga sé lögð fram falli hún um sjálfa sig.

„Við töldum, af okkar hálfu, að þetta væri ásættanlegt, að fara með þetta með þessum hætti,“ segir Gunnar og segir það mikil vonbrigði að ljósmæður hafi verið mótfallnar framlagningu tillögunnar. „Það er grafalvarlegt mál. Ég hélt að þetta væri ein af þeirra meginkröfum, að þær fengju eitthvað mat á launaleiðréttingu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert