Flogið norður með tvær óléttar

Flogið var með tvær konur frá Reykjavík til Akureyrar til …
Flogið var með tvær konur frá Reykjavík til Akureyrar til að fæða. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Nóttin gekk ágætlega á fæðingardeild Sjúkrahússins á Akureyri, að sögn Eddu Guðrúnar Kristjánsdóttur ljósmóður. Tvær ljósmæður eru jafnan á næturvakt á Sjúkrahúsinu á Akureyri og svo var einnig í nótt. Tvær óléttar konur hafa verið sendar með flugi norður af Landspítalanum í Reykjavík vegna álags þar, önnur í gær en hin nú í nótt.

Engin fæðing var á sjúkrahúsinu í nótt, en Edda segir að deildin sé engu að síður stútfull enda ekki bara fæðingardeild heldur einnig sængurdeild og meðgöngudeild. Þar séu meðal annars framkvæmdar fóstureyðingar, mæðravernd, sónarskoðanir og fleira.

Edda segir ljósmæður á Akureyri þó hafa áhyggjur af næstu viku, sem þær sjái fyrir sér að geti verið erfið. Von er á nokkrum konum frá Landspítalanum eftir helgi. „Við misstum eina ljósmóður í langtímaveikindi og því er mönnun hjá okkur afar knöpp,“ segir Edda og bætir við að lítið megi út af bregða.

Samninganefndir ríkisins og ljósmæðra munu hittast á samningafundi hjá ríkissáttasemjara klukkan 10.30 í dag. Yfirvinnubann ljósmæðra tók gildi á miðnætti í fyrradag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert