„Miðlunartillagan felur í sér nákvæmlega sama samning og ljósmæður felldu núna í júní, ekkert meira og ekkert öðruvísi. Það að setja svo málið í gerðardóm eins og var talað um, það í rauninni er svolítið ótryggt að okkar mati, þegar ekkert meira kemur samhliða,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra í samtali við mbl.is.
Hún segir að um leið og ljósmæður myndu samþykkja að setja deiluna í gerðardóm missi þær samningsumboð sitt og að á það geti þær ekki fallist, án þess að hafa einhverja tryggingu um hækkanir umfram samninginn sem hefur áður verið felldur.
Líkir Katrín Sif því við að kaupa happdrættismiða, að samþykkja að deilan fari til gerðardóms án þess að ljósmæður hafi nokkuð í hendi annað en þann samning sem þær felldu í júní.
„Gerðardómur er náttúrlega skipaður aðilum sem eru skipaðir af ríkinu, sem starfa á vegum ríkisins og fá greitt frá ríkinu og starfa eftir forskrift frá ríkinu,“ segir Katrín Sif og hljómar ekki sannfærð um að úrskurður gerðardóms yrði ljósmæðrum hagfelldur.
Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins í deilunni, sagði í samtali við mbl.is í dag að það væri „beinlínis rangt“ hjá Katrínu að halda því fram að ekkert nýtt hefði fælist í hugmynd ríkissáttasemjara um að láta áður felldan samning ljósmæðra taka gildi og vísa svo launasetningu ljósmæðra til þriggja manna gerðardóms.
„Mér fannst þetta mjög undarlegt, að lesa þessi ummæli frá honum Gunnari Björnssyni, af því að staðan er þannig að við erum ekki með neitt á borðinu nema samninginn sem búið er að hafna og svo vilyrði fyrir því að gerðardómur fari yfir mál. Við erum ekki með neitt í hendi,“ segir Katrín Sif.
Hún segir að meira þurfi til að þær sem sagt hafa upp störfum komi aftur til starfa og til að tryggja að þær sem séu enn starfandi kjósi að vera það áfram. Kröfum ljósmæðra um 60 milljón krónur utan miðlæga kjarasamningsins, hafi verið hafnað.
„Við óskuðum eftir því að það yrði lagt inn, til hliðar við miðlæga samninginn, allavega 120 milljónir sem hægt væri að setja inn á stofnanir til að hægt væri að sýna fram á að það væri einhver leiðrétting föst á borði.
Það snerist þá um það að bæta við 60 milljónum við það sem átti að fylgja í fyrra tilboði, þó að það sé í rauninni ekki eiginlegur hluti af miðlægum kjarasamningum.Því var hafnað, það var ekki hægt, þannig að þeir voru ekki tilbúnir til þess að gefa okkur neina tryggingu,“ segir Katrín Sif.
„Staðan er bara orðin þannig, þetta hefur gengið svo ofboðslega langt og svo mikið sem hefur gengið á að ljósmæður koma ekkert aftur til starfa fyrir orð á blaði og möguleikann á því að komi kannski úrskurður um eitthvað. Það þarf að hafa eitthvað fast í hendi,“ segir Katrín Sif sem segir tillögu ríkissáttasemjara í dag hafa strandað á því að þessar 60 milljónir kæmu til stofnana frá velferðarráðuneytinu.
„Svo við hefðum allavega einhverjar smá hækkanir, sem er náttúrlega ekki mikið þegar það deilist niður á 19 stofnanir og 280 ljósmæður, en það var ekki vilji til þess,“ segir Katrín Sif.