Duglega hefur sést til sólar á suðvesturhorninu í dag og hefur hitinn náð hæst 17-18 gráðum inn til landsins að sunnanverðu. Blíðan er þó skammgóður vermir að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands því strax í fyrramálið verður farið að rigna á suðvesturhorninu og engin sól í kortunum næstu daga á öllu landinu.
„Það er betra að slökkva væntingarnar strax. Það verður komin rigning hér í fyrramálið, tiltölulega snemma og það rignir allan morgundaginn. Svo er í raun fremur svalt og þungbúið næstu daga. Helgin verður frekar óspennandi veðurfarslega séð og það á við um allt land,“ segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Þá verði enginn einn staður á landinu sem standi helst upp úr hvað veðursæld varðar, heldur verði veður nokkuð grámyglulegt það sem eftir lifir viku.