„Leitað er allra leiða til þess að takast á við fóðurskortinn í Noregi,“ segir Kåre Oskar Larsen, deildarstjóri fagdeildar ráðgjafarmiðstöðvar norsks landbúnaðar, í samtali við blaðamann mbl.is. Hann segir verið sé að samræma aðgerðir til þess að draga úr neikvæðum áhrifum þurrkana með því að hvetja kornræktendur til þess að framleiða strábagga til þess að mæta þörf.
Larsen segir miðstöðina ráðleggja norskum bændum að senda ekki dýr til slátrunar strax þar sem unnið er að því að útvega fóður. Þá er meðal annars unnið hörðum höndum að því að fá bændur sem stunda kornrækt til þess að safna stráum í bagga eftir uppskeru.
Hann segir fóðurvandamál sumra bænda vera aðsteðjandi núna, en í tilfellum flestra snýst þetta um að til verði nóg fóður yfir vetrartímann þar sem ekki er að spretta á landi sem þegar hefur verið nýtt í beit.
Fóðurskorturinn er ekki um allt land að sögn Larsen sem bendir á að staðan í Norður-Noregi sé í lagi þrátt fyrir að á því svæði hafa bændur glímt við skemmdir á túnum eftir erfiðan vetur. Þá segir hann stöðuna í Þrændalögum, eða mið-Noregi, blandaða og að þar sé alls engin neyð í vændum.
Í vesturhluta Noregs er um að ræða skort í litlum mæli Ekki er ljóst hvort mikil vandamál verða þar, slíkt veltur á því hvort rignir á næstu vikum. Frá suðvesturhluta landsins og til austurs og suðurs er hins vegar talsverður framleiðslubrestur.
Norskur fóðurframleiðandi, Fiskå Mølle, hefur þegar sýnt innflutningi á heyi frá Íslandi áhuga og hefur verið að skoða flutningsmöguleika. Fulltrúi fyrirtækisins hefur sagt eftirspurnina mikla og að ákjósanlegast væri að fá hey frá Íslandi fram yfir aðra hluta Evrópu.
Til þess að hægt verði að flytja hey frá Íslandi til Noregs þurfa íslensk yfirvöld að votta að heyið uppfylli norskar kröfur um heilnæmi. Matvælastofnun (MAST) mun sjá um framkvæmd vottunar, ef stofnunin telur sig geta veitt þá vottun sem um er beðið. Á þessu stigi málsins er þó enn óljóst hvert framhaldið verður.
„Við erum bara að fikra okkur áfram til að vita hvort við getum staðið undir þessum kröfum,“ sagði Þorvaldur H. Þórðarson, framkvæmdastjóri MAST, í samtali við blaðamann mbl.is á þriðjudag.
Samkvæmt Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur ráðuneytinu ekki borist neinar beiðnir frá norskum yfirvöldum vegna stöðu mála í Noregi. Hann segir að eins og málin standa nú er framhaldið í vinnslu hjá MAST og að einhverju leyti Matís.