Svandís hugsi yfir afstöðu ljósmæðra

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ekki tímabært að ræða lög á …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ekki tímabært að ræða lög á yfirvinnuverkfall ljósmæðra. mbl.is/Valli

„Staðan er grafalvarleg og verulegt umhugsunarefni að ljósmæður hafni hverju lausnarúrræðinu á fætur öðru,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í Fréttablaðinu í dag. Í frétt blaðsins kemur fram að sex ljósmæður til viðbótar hafi sagt upp störfum í gær. 

Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari freistsaði þess í gær, eins og fram kom í fréttum mbl.is, að fá heimild samninganefnda ríkisins og ljósmæðra til að fá að leggja fram miðlunartillögu þar sem ágreiningsefnum yrði vísað til þriggja manna gerðardóms. Samkvæmt tillögunni myndi áður felldur samningur ljósmæðra taka gildi þegar í stað en breyting yrði svo gerð í kjölfar úttektar gerðardómsins.

Ljósmæður höfnuðu því að ríkissáttasemjari myndi leggja fram slíka tillögu. Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, sagði við mbl.is í gærkvöldi að um leið og samþykkt yrði að setja deiluna í gerðardóm myndu ljósmæður missa samningsumboð sitt og á það gæti þær ekki fallist.

Svandís segir í Fréttablaðinu í dag  að ótímabært sé að ræða lög á yfirvinnuverkfall ljósmæðra. Verkfallið og uppsagnir fjölda ljósmæðra hefur þegar haft mikil áhrif á starfsemi sjúkrahúsa. Í gær var m.a. ákveðið að loka meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítalans og sameina starfsemi hennar kvenlækningadeild, að því er fram kom í frétt mbl.is. Þá mun ómskoðun á 11.-14. viku meðgöngu falla niður frá og með næsta mánudegi.

Í Fréttablaðinu er haft eftir Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra að lagasetning á verkfall ljósmæðra sé á forræði ráðherra heilbrigðismála „en er ekki til umræðu“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert