„Að sjálfsögðu er ég glöð, þetta er náttúrulega gríðarlegur léttir og þarna lögðust allir á árarnar við að finna lausn,“ segir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, í samtali við mbl.is. Yfirvinnubanni ljósmæðra var aflýst í kvöld vegna miðlunartillögu ríkissáttasemjara.
Svandís segir niðurstöðuna ánægjulega. „Þetta er verulega ánægjulegt og fyrst og fremst ánægjulegt fyrir verðandi mæður og fólk sem hefur verið kvíðið og áhyggjufullt og fyrir okkar góða fólk sem hefur verið að standa vaktina undir fáránlegu álagi.“
Hún segir að sú niðurstaða að gerðardómi verði falið að meta launasetningu stéttarinnar í samræmi við álag, menntun og inntak starfs ljósmæðra hafi verið skynsamleg. „Það eru ákveðin rök fyrir því sem að sáttasemjari hefur að einhver hluti af ágreiningnum fari fyrir gerðardóm, og báðir aðilar fallast á það að þessu sinni og þá er það partur af heildarlausninni. Ég held að í þessu tilviki hafi það verið mjög skynsamlegt,“ segir Svandís.
Því segir hún það ljóst að nokkur vinna sé fram undan í kjölfar samkomulagsins, gerðardómur muni hefja störf og mun hann skila niðurstöðu í síðasta lagi 1. september. Einnig sé vinna fram undan tengd stofnanasamningum auk þess sem ljósmæður þurfi að kynna samninginn fyrir sínum félagsmönnum.
„Það eru allir með sín heimaverkefni en það sem er mikilvægast er að akkúrat núna á næstu sólarhringum er það að verkfallinu er aflýst og ljósmæður koma aftur til starfa og það er hægt að taka upp óskerta starfsemi á þeim stofnunum sem bjóða upp á fæðingarþjónustu, þannig að verðandi mæður geta andað léttar,“ segir Svandís.
60 milljónum króna verður veitt til heilbrigðisstofnana til hliðar við miðlægan kjarasamning ljósmæðra við ríkið og er það sama upphæð og ljósmæðrum bauðst í samningnum sem var felldur í júní. Ljósmæður lýstu því yfir fyrr í vikunni að þær vildu 60 milljónir til viðbótar til stofnana, en af því verður ekki.
Svandís segir hluta af mögulegri aðkomu heilbrigðisráðuneytisins að hlutast til um aukna aðkomu heilbrigðisstofnana í því að meta enn betur vinnuframlag ljósmæðra en verið hefur.
„Það skiptir mestu máli er að allir séu sáttir og að við fáum okkar góðu ljósmæður aftur til starfa,“ segir Svandís.