Á von á því að ljósmæður samþykki miðlunartillöguna

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra.
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra. mbl.is/Hari

„Ég á frekar von á því að ljósmæður samþykki miðlunartillöguna,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra í kjaradeilunni við ríkið. Hún er nú stödd ásamt öðrum úr nefndinni á fundi á Akureyri þar sem tillagan er kynnt. Í kvöld verður haldinn sambærilegur fundur í Reykjavík. Hún segir samninganefndina kynna tillögunina hlutlaust en treysta á það að „konur taki upplýsta ákvörðun“.

Samninganefndir ljósmæðra og ríkisins samþykktu miðlunartillögu ríkissáttasemjara á fundi í gærkvöldi. Í kjölfarið var yfirvinnuverkfalli ljósmæðra aflýst.

Tillagan felur í sér að sérstökum gerðardómi verði falið að kveða upp úr um það hvort að launasetning stéttarinnar sé í samræmi við álag, menntun og inntak starfs ljósmæðra og að hvaða leyti þessir þættir eigi að hafa áhrif á launin. Þá felur hún í sér í grundvallaratriðum sambærilegar hækkanir og samningur aðila frá 29. maí, sem ljósmæður felldu í júní, kvað á um.

Sambærilegt fyrir utan innlegg Landspítala

Þetta er að þessu leyti sambærilegt við þá miðlunartillögu sem ljósmæður féllust ekki á í síðustu viku. Úrslita áhrif hafði hins vegar yfirlýsing frá stjórn Landspítalans um að hún muni endurskoða og endurmeta starfslýsingar og ábyrgð ljósmæðra og taka inn í þá vinnu jafnlaunavottun sem átti eftir að meta til tekna.

Það sem uppá vantaði

Fundur Katrínar með ljósmæðrum á Akureyri var nýbyrjaður er mbl.is náði tali af henni í morgun. Hún sagðist því ekki geta lagt mat á hvernig hljóðið væri í þeirra hópi eftir að sátt náðist um miðlunartillöguna hjá samninganefndunum í gær. 

„[Innleggið frá Landspítalanum] var í raun það sem uppá vantaði,“ segir Katrín um miðlunartillöguna. „Við erum búnar að funda víða og með mörgum síðustu daga. Þar á meðal landlækni og forstjóra spítalans. Við óskuðum svo eftir [samninga]fundi. Við vorum búnar að tala um það að við gætum ekki tekið þessari miðlunartillögu nema að fleira kæmi til. Og þar sem að ljóst var að það ætluðu fleiri að koma að við að leysa deiluna þá gátum við boðað til fundar á ný og sæst á þessa tillögu,“ segir hún.

Þið gagnrýnduð það í síðustu viku að með gerðardómi væri umboðið farið úr ykkar höndum. Finnst ykkur sum sé þetta vera það mikil breyting, þetta innlegg spítalans, að þið hafið ekki áhyggjur af því lengur?

„Vði höfðum ekki beint áhyggjur af því, okkur fannst miðlunartillagan í síðustu viku einfaldlega ekki nóg ein og sér. Það var ekki nóg að það kæmi ekki inn í raun nein hækkun á grunnlaunum, að það færi bara allt í gerðardóm upp á von og óvon. Það yrði að koma meira til og svo treystum við á það að gerðardómur fari yfir þetta mjög faglega. Og við vitum að við eigum helling inni [umfram samninginn frá í maí] og við treystum á að það komi með gerðardómi.“

Munu bíða þar til niðurstaða fæst

Katrín segir ljóst að það muni taka einhvern tíma fyrir starfsemi á sjúkrahúsum að fara í samt horf og áður, þrátt fyrir að yfirvinnubanni hafi nú verið aflétt. Fjöldi ljósmæðra hefur sagt upp störfum síðustu vikur og mánuði. „Það vantar mikið af starfsfólki svo þetta mun taka tíma. En það er léttir vissulega að einhverju leyti að yfirvinnubanni hefur verið aflétt. En það er skarð, það vantar ansi margar ljósmæður svo þetta geti orðið með eðlilegum hætti.“

Hún segist ekki hafa heyrt af ljósmæðrum sem hafi dregið uppsagnir sínar til baka. „Enda hugsa ég að það taki enginn ákvörðun um það fyrr en að heyra fyrst hvað er í boði.“

Hún segir að kosning félagsmanna um miðlunartillöguna muni taka stuttan tíma. Hún verður rafræn og hefst á morgun og skal vera lokið upp úr hádegi á miðvikudag. „Ég held að það dragi enginn [uppsagnir] til baka fyrr en að niðurstaðan er í höfn.“

Á von á spennufalli

Katrín sagði sjálf upp starfi sínu sem ljósmóðir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og tekur sú uppsögn gildi 1. september. „Ég er á báðum áttum hvort að ég snúi til baka. Ég hef sótt um annars staðar og ætla að sjá hvað setur.“

„Ég er nú bara rúmlega hálfnuð með sumarfríið mitt,“ segir Katrín hlæjandi, spurð hvað taki við hjá henni á miðvikudag, eftir mikla keyrslu síðustu vikur og mánuði. „Ég var einmitt að hugsa þetta áður en ég fór að sofa í gær, ætli það komi ekki rosalegt spennufall. Þetta hefur átt hug manns allan nótt sem nýtan dag í svo langan tíma. Ætli ég fari ekki að sinna börnunum mínum betur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert