„Komum vonandi aldrei saman aftur“

Unnur er menntuð ljósmóðir en starfar sem hjúkrunarfræðingur í dag.
Unnur er menntuð ljósmóðir en starfar sem hjúkrunarfræðingur í dag. mbl.is/Hjörtur

„Mér er afskaplega létt. Ég vona að samningarnir séu nógu góðir til að ljósmæður geti hugsað sér að koma aftur til starfa,“ segir Unnur Berglind Friðriksdóttir, sem hefur setið í undanþágunefnd í ljósmæðraverkfallinu fyrir hönd ljósmæðra. Hún vonast til að nefndin þurfi aldrei að koma aftur saman.

Hlutverk undanþágunefndarinnar er að afgreiða beiðnir sem berast um undanþágur frá yfirvinnubanni ljósmæðra þegar þörf er talin á. Nefndin hefur nú lokið störfum, í bili í það minnsta, þar sem samningar hafa náðst milli ljósmæðra og ríkisins og hefur verkfallinu verið frestað.

Unnur er sjálf menntuð ljósmóðir en söðlaði um fyrir nokkru og vinnur nú sem hjúkrunarfræðingur. Hún stefnir ekki á að snúa aftur á fæðingardeildina. „Ég gafst upp fyrir töluverðu síðan.“

Unnur hefur verið erlendis síðustu daga, nú síðast í Kaupmannahöfn. Hún segir þó að það hafi engin áhrif á störf hennar fyrir undanþágunefndina enda sé hún net- og símatengd. Hvergi standi í lögum að nefndarmenn þurfi að vera á Íslandi.

Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, sagði í yfirlýsingu sem birt var á mbl.is í gær að nauðsynlegt væri að undanþágunefnd starfaði „hratt og ör­ugg­lega en þar sem full­trúi ljós­mæðra er er­lend­is hef­ur því miður orðið mis­brest­ur á því“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Hallmundur Kristinsson: Gott
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert