Engar „sáraeinfaldar“ lausnir

Eins og hraðbraut segja íbúar í Mosfellsdal um Þingvallaveginn. Á …
Eins og hraðbraut segja íbúar í Mosfellsdal um Þingvallaveginn. Á þessari mynd, sem tekin var um miðjan dag í gær, má sjá hvernig ástandið er flesta daga. mbl.is/Árni Sæberg

Yfirborðsmerkingar hafa þegar verið málaðar á Þingvallaveg í Mosfellsdal þar sem vegfarendur eru minntir á að hámarkshraðinn sé 70 km/klst. Var þetta gert að kröfu bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ. Ekki hefur hins vegar enn verið farið að þeirri kröfu að setja upp hraðamyndavélar til að draga úr tíðum hraðaakstri á veginum.

Um helgina varð banaslys á Þingvallavegi í Mosfellsdal. Slysið varð við framúrakstur. Annar bíllinn kastaðist langt út af veginum og ofan í skurð við áreksturinn.

Dalbúar hafa lengi krafist úrbóta á veginum sem þeir lýsa sem „hraðbraut“ og „rússneskri rúllettu“. Þar er ekið hratt, framúrakstur tíður, ferðamenn stoppa hist og her til að mynda hesta á beit og skeyta engu hvort að þeir tefji umferð, byrgi sýn og valdi stórhættu í gegnum landbúnaðarsvæði þar sem dýr og gangandi menn eru mikið á ferðinni.

Deiliskipulagstillaga, sem gerir ráð fyrir tveimur hringtorgum á veginum, undirgöngum fyrir gangandi og ríðandi vegfarendur og vegöxlum, er í skipulagsferli. Því líkur brátt og vonast bæjarstjóri Mosfellsbæjar til þess að hægt verði að hefja framkvæmdir á næsta ári. Engin ákvörðun þar um liggur þó fyrir.

Íbúar í Mosfellsdal vilja að farið verði í aðgerðir nú þegar til að bæta umferðaröryggið. Undir þá kröfu tók Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í viðtali viðmbl.is fyrr í dag.

Merkingar sem enginn sér gagnslausar

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni voru 70 kílómetra hámarkshraða merkingar málaðar á veginn á fjórum stöðum í dalnum þann 17. júlí . „Jú, ég held að það hafi einhver áhrif að setja svona á yfirborð vegarins,“ svarar Svanur Bjarnason, svæðisstjóri hjá Vegagerðinni, spurður hvort að merkingar sem þessar dragi úr hraða. Slík merki séu viðbót við hefðbundin umferðarskilti sem og blikkandi ljósaskilti sem upplýsi ökumenn um þann hraða sem þeir aki á. Þannig viðvörunarskilti er að finna til móts við Gljúfrastein efst í dalnum sem og við Tjaldanes neðst í honum.

Svanur Bjarnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar.
Svanur Bjarnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar. mbl.is/Sigurður Bogi

Íbúar í Mosfellsdal, sem mbl.is hefur rætt við í morgun, segjast margir ekki hafa tekið eftir þessum merkingum. Ekkert gagn sé af aðgerðum sem enginn taki eftir. 

En hvað segir Vegagerðin um að setja upp hraðamyndavélar við veginn, líkt og bæjaryfirvöld hafa farið fram á?

Svanur segir að það hafi sér að vitandi ekki verið tekið til skoðunar. Kostnaðurinn sé mikill. „Ég veit að það er verið að setja hraðamyndavélar á Grindavíkurvegi núna og þetta kostar einhverja tugi milljóna. Þetta er allt spurning um fjármagn. [...] Ég veit ekki til þess að það sé á döfinni að setja upp hraðamyndavélar [í Mosfellsdal].“

En er hægt að fara í einhverjar aðrar minni aðgerðir, þar til stærri framkvæmdir við veginn hefjast, til að auka umferðaröryggi?

 „Í þessu skipulagi sem er í auglýsingaferli þar eru náttúrlega aðgerðir sem beinlínis eiga að draga úr hraða,“ minnir Svanur á. „En ég held að það sé fátt annað [hægt að gera] nema þá að setja upp hraðamyndavélar. Ég sé ekki alveg hvað fleira væri hægt að gera.“

Hann segir vart hægt að setja hraðahindrun á veginn þar sem hámarkshraðinn sé 70 km/klst.

Straumur bíla á leið niður Mosfellsdal. Á þessum stað er …
Straumur bíla á leið niður Mosfellsdal. Á þessum stað er fyrirhugað að koma upp hringtorgi. mbl.is/Árni Sæberg

En væri hægt að lækka hámarkshraðann, eins og íbúar í Mosfellsdal hafa sumir hverjir hvatt til að verði gert?

Svanur hefur efasemdir um það. Hann segir nógu erfitt að halda hámarkshraðanum í sjötíu. Á svo löngum vegkafla yrði erfitt að framfylgja því ef hámarkshraðinn yrði færður niður í 50 km/klst. „Bara það að breyta merkingum held ég að myndi ekki endilega skila [miklu].“

Hringtorg draga tvímælalaust úr hraða

Deiliskipulagstillagan sem nú er í skipulagsferli er sameiginleg tillaga Vegagerðarinnar og sveitarfélagsins. Þeim framkvæmdum er að sögn Svans ætlað að draga úr umferðarhraða. Hann segir hringtorg, sem til stendur að setja niður á tveimur stöðum í dalnum, „tvímælalaust“ draga úr hraðaakstri.

Hann segir því engar „sáraeinfaldar lausnir“ til úrbóta koma upp í hugann sem hægt væri að fara í þegar í stað. „En eflaust verður þetta til umræðu hjá okkur næstu daga í kjölfar þessa slyss.“ Hann segist ekki þora að segja til um það hvort að uppsetning hraðamyndavéla verði nú tekin til skoðunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert