Mannvistarlög frá landnámsöld og fram á 14. öld hafa fundist við Mosfell í Mosfellsdal og þykja þau geta varpað góðu ljósi á sögu miðalda á svæðinu.
Framkvæmdir við gerð nýs bílaplans við Mosfellskirkju voru stöðvaðar í apríl sl. og leiddi forrannsókn fornleifafræðinga mannvistarlögin í ljós. Minjastofnun mun í vikunni taka ákvörðun um það hvort frekari uppgröftur verði gerður á svæðinu, en ljóst þykir að hluta svæðisins verði að grafa upp enda verði bílaplanið ekki lagt yfir vegna hættu á raski á minjunum.
„Þetta er stórmerkilegt og það má lesa úr þessum lögum heilmikla sögu ef það verður farið í frekari rannsóknir. Sérstaklega vegna þess að við höfum svo lítið frá miðöldum. Þetta er mjög áhugavert,“ segir Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur sem hefur rannsakað svæðið í sumar. Hún telur líklegt að miðaldakirkja sem byggð var á Mosfelli geti leynst norðan við Mosfellskirkju þar sem hún stendur nú.