„Tækifærið er núna og ég ætla að grípa það,“ segir Ívar Örn Hansen, kokkur og mikill aðdáandi Guns N‘ Roses, í samtali við mbl.is um tónleika hljómsveitarinnar á Laugardalsvelli í kvöld. Hann ætlar sér að nýta mögulega síðasta tækifæri sitt til að sjá hljómsveitina spila á tónleikum.
Ívar hefur hlustað á hljómsveitina síðan platan Appetite for Destruction kom út árið 1987 og er því búinn að vera aðdáandi í um það bil 30 ár. Hann er spenntur fyrir tónleikunum í kvöld og ætlar með konu sinni og þrettán ára syni þeirra. Ívar segist ekki alveg vera búinn að ná syni sínum í aðdáendaklúbb hljómsveitarinnar en hann þekki þó einhver lög.
„Við erum búin að spila þetta svo rosalega mikið í gegnum árin þannig að hann þekkir nú alveg helstu lögin,“ segir Ívar.
Ívar er með ákveðnar væntingar til kvöldsins og tónleikanna en áttar sig þó á því að liðsmenn hljómsveitarinnar eru mögulega komnir yfir sitt besta. Hann þekkir nokkra aðila sem hafa farið á tónleika með sveitinni á Evróputúrnum, sem endar á Íslandi í kvöld, og hefur heyrt misjafna hluti.
„Auðvitað er maður búinn að gera sér ákveðnar væntingar um það hvernig þetta eigi að vera en það verður bara að búast við því versta og vona það besta. Kannski verður þetta rosa vont en kannski rosa gott,“ segir Ívar.
„Þetta verður alla vega góð minning,“ bætir hann við.
Þegar Ívar er spurður um uppáhaldslag stendur ekki á svörum. „November Rain,“ segir Ívar og bendir blaðamanni á að hlusta vel á textann í laginu. Mr. Brownstone er annað lag sem Ívar heldur upp á en á erfitt með að gera upp á milli laga.
Ívar er í vélhjólaklúbbnum Hröfnum og ætlar að mæta í fullum skrúða á tónleikana í kvöld.
„Ég mæti að sjálfsögðu á mótorhjólinu mínu í leðurvestinu með klúbbmerkið á mér. Það er ákveðið rokk í því,“ segir Ívar að lokum.