Heimilislausir fá ekki sumarfrí frá áhyggjum

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar sendu frá sér tilkynningu í morgun og þessa …
Fulltrúar stjórnarandstöðunnar sendu frá sér tilkynningu í morgun og þessa mynd af sér sem tekin var að loknum fundi þeirra í gær. Ljósmynd/Aðsend

Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í borgarstjórn hittust á fundi í gærdag til að fjalla um „það neyðarástand sem nú ríkir meðal sífellt fleiri heimilislausra í Reykjavík,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu þeirra. Harmar stjórnarandstaðan það sem hún segir „algjört aðgerðarleysi“ í þessum málaflokki.

Yfirlýsing stjórnarandstöðuflokkanna í borgarstjórn:

„Við þessar aðstæður er það fullkomið ábyrgðarleysi að borgarstjórn og fagráð borgarinnar séu nú komin í sumarleyfi án þess að leysa vandann. Stjórnarandstaðan óskaði eftir aukafundi í velferðarráði fyrr í sumar þar sem þessi mál yrðu sett á dagskrá í heild sinni. Svörin voru á þann veg að ekki var unnt að verða við ósk um aukafund fyrr en 10. ágúst nk., á meðan eykst neyð heimilislausra með hverjum deginum. Eins og fram hefur komið í nýlegu áliti umboðsmanns Alþingis hefur meirihluti borgarstjórnar brugðist skyldum sínum í þessum efnum.

Stjórnarandstaðan, hvar í flokki sem hún stendur, sammælist um að grípa þurfi strax til neyðarúrræða, hefjast handa við að leysa þennan alvarlega vanda til frambúðar og hefur farið fram á aukafund í borgarráði strax í næstu viku.

Heimilislaust fólk fær ekki sumarfrí frá áhyggjum sínum og þeirri angist sem fylgir því að hafa ekki þak yfir höfuðið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert