Stefnt er að því að íbúafjöldi í Kópavogi verði vel yfir 40.000 árið 2024, þegar skipulagstímabil aðalskipulags Kópavogs er liðið. Uppbygging er langt komin á þéttingarreitum vestan Lindahverfis og áform bæjarins um uppbyggingu eru á áætlun heilt á litið. Ráðgert er að 3.000 íbúðir hafi risið á þéttingarreitunum árið 2024. Frá árinu 1990 hefur íbúum í Kópavogi fjölgað um 19.600, úr 16.200 í 35.800.
„Íbúafjöldinn hjá okkur hefur vaxið um 112% síðan um 1990, en minna í borginni, um 23%. 75.000 íbúar þurfa að finna sér stað á höfuðborgarsvæðinu fram til ársins 2040 og í svæðisskipulagi eru gefin út ákveðin ytri mörk byggðar. Af þeirri ástæðu hafa sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu horft inn á við og til þéttingar byggðar,“ segir Birgir Hlynur Sigurðsson, skipulagsstjóri Kópavogsbæjar.
„Í aðalskipulagi gerum við ráð fyrir að 75% af uppbyggingunni á skipulagstímabili aðalskipulagsins verði á svæði vestan línu sem draga má við Lindakirkju og 25% þar fyrir utan. Við gerum ráð fyrir að yfir 40.000 íbúar verði hér í bænum árið 2024,“ segir hann.
„Við höfum áður misreiknað okkur varðandi íbúafjölgunina. Hún hefur verið meiri en við höfum búist við. Við setjum varnagla með því að segja að íbúar verði að minnsta kosti orðnir 40.000 árið 2024. Ég geri ráð fyrir að við förum yfir þá tölu,“ segir hann og er spurnin mikil eftir íbúðunum að sögn Birgis Hlyns.
Uppbygging á þéttingarreitum í Kópavogi er mislangt komin, sumstaðar vel á veg en annars staðar eru framkvæmdaraðilar í startholunum. Alls er unnið að þéttingu byggðar á átta stöðum í bænum.
Árið 2024 munu 1.060 íbúðir hafa risið í nágrenni Smáralindar gangi áætlanir Kópavogsbæjar eftir. Í nýju hverfi, Glaðheimum, er nánast fullbyggt samkvæmt því sem skipulag gerir ráð fyrir. Nýlega hófst niðurrif gamla áhaldahússins í Kópavogi, en á þeim reit mun rísa íbúðarhús. Í Glaðheimum er gert ráð fyrir 300 íbúðum alls og er húsið á reit áhaldahússins það síðasta sem þar rís samkvæmt núgildandi áætlunum.
Á stærsta þéttingarreitnum í Kópavogi verður brátt til nýr hverfiskjarni, 201 Smári, suðvestan við Smáralind. Á tveimur reitum þar er bygging hafin, en í hverfinu verða alls 620 íbúðir. Þriðji reiturinn var afgreiddur hjá byggingafulltrúa í síðustu viku. „Þarna er fullur gangur og þetta á eftir að breyta svæðinu verulega. Vesturhluti svæðisins mun t.d. fara inn á bílastæðið við Smáralind. Þar verður líka nýr reitur undir verslun og þjónustu,“ segir Birgir Hlynur.
Í vesturbæ Kópavogs er uppbygging langt komin á Kópavogstúni, um 400 íbúðir. Í Lundi í Fossvogsdal er í skipulagi gert ráð fyrir 400 íbúðum og er bygging þeirra vel á veg komin. Í Auðbrekku, norðan við Hamraborg er uppbygging hafin, en þar hefur bygging 165 íbúða verið samþykkt. Talsverð breyting mun eiga sér stað á því svæði, en við Dalbrekku er gert ráð fyrir miðlægu torgi með tengingu við gönguleiðir í hverfinu, kaffihúsi, bekkjum og afþreyingu.
Í nýju Bryggjuhverfi á Kársnesi hafa verið byggðar um 30% af þeim byggingum sem áætlaðar eru. Þegar öllu er lokið mun þar standa 400 íbúðir á landfyllingu á norðanverðu Kársnesi. Við Hafnarbraut 12 á Kársnesi munu rísa 130 íbúðir og við Kársnesbraut og Bakkabraut rísa 130 íbúðir ásamt verslun og þjónustu. Einnig munu rísa íbúðarhús við Hafnarbraut 13 og 15 og þegar allt er talið verða 550 íbúðir vestast á Kársnesi.
Á Nónhæð í Kópavogi munu rísa íbúðarhús á þremur lóðum, tveggja, þriggja og fjögurra hæða. Í húsunum verða um 140 íbúðir. Framkvæmdir við fyrsta húsið eru byrjaðar og voru byggingaráform lóðarhafa á öllum lóðunum samþykkt í skipulagsráði Kópavogsbæjar fyrr í þessum mánuði.
3.000 íbúðir verða á þéttingarreitunum átta árið 2024, gangi áætlanir eftir. Birgir Hlynur segir að bygging íbúðanna sé á áætlun, en nefnir að byggingarframkvæmdir og skipulagsvinna á þéttingarreitum reynist þó oft flóknari en á alveg nýjum svæðum í útjaðri byggðarinnar.
„Meginhugmyndafræðin að baki þéttingu byggðar er að þenja byggðina ekki of mikið út og nýta þá innviði sem þegar eru til staðar í sveitarfélaginu. Við reynum líka að auka vægi almenningssamgangna. Við viljum byggja nær miðju bæjarins, í nálægð við atvinnutækifæri og blanda byggðinni meira,“ segir Birgir Hlynur.
„Þéttingarverkefni taka yfirleitt lengri tíma en þegar við byggjum úti í jaðrinum. Það eru ákveðnar flækjur sem koma upp og menn þurfa að leysa úr. Það er ekkert óyfirstíganlegt, en það getur tekið lengri tíma,“ segir hann.
Skipulagsráð Kópavogsbæjar hefur ákveðið að hefja endurskoðun á aðalskipulagi fyrir bæinn. Birgir Hlynur segir að farið verði yfir fyrri áætlanir og metið hvort íbúa- og íbúðafjölgun stemmi fyrir hvern einasta byggingarreit. Hann segir að öll áform séu á áætlun gróft á litið.
Aðspurður segir hann að fleiri möguleikar séu í stöðunni til framtíðar og að bæjaryfirvöld líti til fleiri möguleika við þéttingu Kópavogsbyggðar.
„Við erum að horfa til miðbæjarsvæðisins, Fannborgar og svæðisins kringum Hamraborg og svæða sem eru austar á Digraneshálsinum. Síðan horfum við til þess að auka við uppbyggingu í Auðbrekku. Síðan ætlum við að skoða Glaðheimasvæðið betur og fara í endurskoðun á skipulaginu þar. Þar eru möguleikar alveg við Reykjanesbrautina,“ segir hann, en hugmyndir eru einnig uppi um uppbyggingu í efri byggðum bæjarins.
„Við eigum svæði uppi á Vatnsendahvarfi, þar sem loftskeytamöstrin eru. Við höfum aðeins gjóað augunum þangað, þar er hægt að koma fyrir góðri íbúabyggð. Síðan höfum við haft land í Vatnsenda síðustu tíu ár, uppi á Vatnsendahæð,“ segir hann.