Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands (SS), segir fyrirtækin ekki lengur geta tekið á sig tugprósenta launahækkanir.
„Í sumum tilfellum leiðir þetta til verðbólgu eða verðhækkana. Í öðrum tilfellum getur þetta kippt grundvellinum undan rekstri fyrirtækjanna. Það er eins og gengur.“
Steinþór segir laun í kjötvinnslu hafa hækkað um 30-40% síðustu ár. Aðeins brot af þeirri kostnaðarhækkun sé komin út í verðlag.
Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar (MS), segir laun hjá MS hafa hækkað um rúm 40% að meðaltali frá maí 2015. Tímabært sé að endurskoða verðskrár.
„Erlendis eru menn að velta fyrir sér hvort laun nái að hækka um hálft til eitt prósent á ári. Við höfum hins vegar verið að hækka laun um eitt prósent á mánuði á þessu tímabili!“ segir Ari um launaskriðið.
Sveinn Jónsson, framkvæmdastjóri félaganna Síldar og fisks og Matfugls, segir launakostnað hafa aukist mikið eftir síðustu samninga. Það ásamt dýrara fóðri eigi mikinn þátt í miklum kostnaðarhækkunum. Matfugl hafi hækkað verð á kjúklingi í vor. Fram undan sé endurskoðun á verðskrá hjá Síld og fiski, sem er m.a. með svín.
Geir Gunnar Geirsson, framkvæmdastjóri hjá Stjörnugrís, telur framleiðendur hafa skilað launahækkunum út í verðlagið að undanförnu. Hins vegar séu blikur á lofti. Fóður sé að hækka mikið í verði.
Eyjólfur Sigurðsson, forstjóri Fóðurblöndunnar, segir mikla þurrka í Evrópu munu leiða til hærra matar- og fóðurverðs. Til dæmis verði maís, hveiti og bygg dýrara. Þá muni tollastríð Bandaríkjanna og Evrópu þrýsta upp fóðurverði. Þetta muni auka kostnað íslenskra bænda.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.