Aðgengi að háskólanámi stærsta spurningin

Háskólinn á Akureyri.
Háskólinn á Akureyri. Ljósmynd/Háskólinn á Akureyri

„Þessi mikla aukn­ing sem varð í ár, um 30%, kom okk­ur eig­in­lega svo­lítið á óvartSér­stak­lega í ljósi þess að við erum ekki enn far­in að sjá mik­il áhrif úr tvö­föld­um fram­halds­skóla,“ seg­ir Eyj­ólf­ur Guðmunds­son, rektor Há­skól­ans á Ak­ur­eyri. Hann seg­ir þó að í nú­tíma­sam­fé­lagi þurfi fólk að mennta sig í aukn­um mæli, breyt­ing­ar séu mjög tíðar og því vanti skýr­ari stefnu um rekst­ur op­in­berra há­skóla, þá sér­stak­lega hvað varðar aðgengi að há­skóla­námi.

Um­sókn­ir um nám við skól­ann fyr­ir skóla­árið 2018/​​2019 slógu öll fyrri met og var end­an­leg tala um­sókna 2.083. Þá var 552 um­sækj­end­um synjað eða þeir höfðu ekki sent inn full­nægj­andi gögn með um­sókn­um sín­um.

„Við erum í fyrsta lagi mjög ánægð með svona mik­inn áhuga á skól­an­um, þetta er búið að vera stig­vax­andi síðustu árin, það var metár í fyrra líka með um 1.800 um­sókn­ir. Fjög­ur af síðustu fimm árum höf­um við slegið met miðað við fyrri ár,“ seg­ir Eyj­ólf­ur og bæt­ir við að hann bú­ist við að aukn­ing­in verði einnig mik­il meðal um­sókna næstu ár. 

Við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri stund­ar fjöl­breytt­ur hóp­ur nem­enda af öllu land­inu nám, þar af stór hluti nem­enda í fjar­námi. Um 65% nem­enda skól­ans eru utan höfuðborg­ar­svæðis­ins en um 35% nem­enda eru á höfuðborg­ar­svæðinu. „Við náum til nem­enda um allt land og það hef­ur verið aðals­merki okk­ar að við veit­um fólki aðgengi að há­skóla­mennt­un sama hvar það býr. [...] Við höf­um sýnt fram á að það sé hægt að veita grunn­há­skóla­nám til allra sama hvar þeir búa á land­inu,“ seg­ir Eyj­ólf­ur. 

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.
Eyj­ólf­ur Guðmunds­son, rektor Há­skól­ans á Ak­ur­eyri. mbl.is/​Skapti

Stjórn­völd þurfi að gefa skýr skila­boð um eft­ir­spurn

Í til­kynn­ingu Há­skól­ans á Ak­ur­eyri um málið seg­ir að stjórn­völd þurfi að gefa skýr skila­boð um það hvernig tak­ast eigi á við um­fram­­spurn eft­ir námi við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri.

Eyj­ólf­ur seg­ir að í ljósi auk­inn­ar spurn­ar eft­ir há­skóla­námi þurfi að ráðast í enn frek­ari mót­un á stefnu op­in­berra há­skóla.

Hann bend­ir á að í nú­tíma­sam­fé­lagi þurfi fólk að mennta sig í aukn­um mæli og breyt­ing­ar séu mjög tíðar. Spurn­in eft­ir há­skóla­námi verði því lík­lega meiri held­ur en áður hefði verið gert ráð fyr­ir af hinu op­in­bera. 

„Það er ekki til nein stefna í land­inu um það hversu stór hluti af hverj­um ár­gangi sem út­skrif­ast úr fram­halds­skóla á að hafa aðgengi að há­skóla. Þarna vant­ar í raun og veru skýra stefnu bæði fyr­ir Há­skól­ann á Ak­ur­eyri hvað varðar þann fjölda sem rík­is­valdið ætl­ast til að við sinn­um, og hins veg­ar fyr­ir landið í heild sinni. Hvernig ætl­um við að vera með há­skóla­mennt­un skipu­lagða næstu 10-15 árin? Það er mjög stór spurn­ing í tengsl­um við þessa fjórðu iðnbylt­ingu. Ég held að þetta sé sam­tal sem þurfi að eiga sér stað mjög hratt næsta vet­ur. Það sem kannski vant­ar er heild­ar­stefn­an,“ seg­ir Eyj­ólf­ur. 

„Ætlum við að leyfa öll­um að koma í há­skóla sem vilja koma í há­skóla, eða vilj­um við gera strang­ari aðgangs­kröf­ur eða tak­mark­an­ir? Það er í raun og veru stóra spurn­ing­in, hverj­ir eigi að hafa aðgengi að há­skóla­námi,“ seg­ir Eyj­ólf­ur.

Eyj­ólf­ur seg­ir að vinna sé þegar haf­in í þess­um efn­um en tel­ur að m.a. til­koma stytt­ing­ar fram­halds­skól­anna ásamt breyt­ing­um í sam­fé­lag­inu þýði að það þurfi að ljúka þeirri vinnu fyrr en áætlað var. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka