Árskort í strætó frá Reykjavík til Grundarfjarðar kostar 720 þúsund krónur. Þetta kemur fram á heimasíðu Strætó. Til samanburðar kostar árskort í strætó frá Reykjavík til Stykkishólms 216 þúsund. Þó munar ekki nema fimm kílómetrum á milli þessara leiða.
Upplýsinga- og markaðsfulltrúi Strætó, Guðmundur Heiðar Helgason, segir að skoða þurfi verðlagninguna á þessu svæði nánar. „Við þurfum að skoða þetta betur, þetta er auðvitað skrítið.“
Guðmundur segir upphæðina reiknaða eftir gjaldsvæðum, það kosti 9 miða að fara til Stykkishólms en 10 til Grundarfjarðar. Einungis munar um eitt gjaldsvæði á milli staðanna en 504 þúsund krónum munar á kortum til Stykkishólms og til Grundarfjarðar, frá Reykjavík. Mjög fáir kaupa kort frá Reykjavík til þessara staða, að sögn Guðmundar í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.