„Held að allir þurfi að bæta sig“

Hjólreiðafólk á ferðinni í Reykjavík.
Hjólreiðafólk á ferðinni í Reykjavík. mbl.is/Styrmir Kári

Formaður Landssamtaka hjólreiðamanna segir að tilkynning lögreglunnar, þar sem komið er á framfæri kvörtunum almennings yfir meintu tillitsleysi hjólreiðamanna í umferðinni, hafi ekki komið sér á óvart.

„Maður fylgist náttúrlega með og sér þetta á samfélagsmiðlum líka,“ segir Árni Davíðsson, formaður Landssamtaka hjólreiðamanna. „Fólk upplifir þetta svona en í hvaða mæli þetta er raunverulegt er svolítið erfitt að segja til um.“

Sjálfur segir hann bílstjóra, gangandi vegfarendur og hjólreiðamenn alla mega auka tillitssemi sína í umferðinni. „Ég held að allir þurfi að bæta sig.“

„Mín upplifun sem gangandi vegfarandi er ekki svona mikil. Ég geng daglega með hund og ég finn ekki fyrir þessu sjálfur.“

Börn hjóla eftir göngustíg.
Börn hjóla eftir göngustíg. mbl.is/Eggert

Mismunandi upplifun fólks

Hann telur eina af ástæðunum fyrir þessum fjölda kvartana sem berast lögreglunni vera nýjabrumið í tengslum við hjólreiðamennskuna. Margir séu á hreyfingu á stígunum og upplifun fólks mismunandi.

Árni bendir á að um 60% íbúa á höfuðborgarsvæðinu hjóli eitthvað yfir árið og í þeim stóra hópi hljóti að vera misjafn sauður í mörgu fé.

„Þeir sem hjóla til æfinga og hjóla hratt verða að taka tillit til hægari umferðar og ég held að þeir geri það sem eru í þessu af einhverri alvöru, þeir hjóli hratt þar sem er lítil umferð og fáir á ferli.“

Lögreglan sendi frá sér tilkynningu í gær.
Lögreglan sendi frá sér tilkynningu í gær. mbl.is/Hjörtur

Vill fleiri aðskilda stíga

Hann kallar eftir fleiri stígum þar sem gangandi vegfarendur og hjólreiðamenn eru skildir að. Minni átök verði á stígunum eftir því sem þeim fjölgi. Þar sem umferðin skerst á stígum og gatnamótum verði vandamálið þó áfram til staðar.

Árni bendir á fjórðu grein umferðarlaganna um tillitsemi og segir að menn verði að tileinka sér hana eins og hægt er.

Einnig nefnir hann leiðbeiningar á heimasíðu Landssamtaka hjólreiðamanna fyrir hjólreiðamenn. Markmiðið með útgáfu þeirra var að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi á milli hjólandi og annarra vegfarenda, hvort heldur á stígum eða götum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert