Sjálfsagt ætla margir í sund á ferðalögum um verslunarmannahelgina. Hér segir af laugum landsins sem eru á annað hundrað, ólíkar eins og þær eru margar.
Andstæður mætast og í tvö horn tekur þegar fólk er spurt um sundlaugar í eftirlæti. Sundstaðina á höfuðborgarsvæðinu rómar fólk fyrir þægindin; það er heita potta, eimböð, leikaðstöðu fyrir börn og laugar þar sem gott er að taka bringusund milli bakka. Að hinu leytinu koma svo sterkar inn íburðarlausar laugar í dreifbýlinu sem eru nánast hluti af landslaginu og falla vel inn í umhverfið sitt.
„Ég fer daglega í Vesturbæjarlaugina. Pottarnir eru æðislegir, sérstaklega kaldi potturinn sem ég er háður. Gufan er í sérflokki og ekki skemmir félagsskapurinn fyrir því laugin er stútfull af frábærum gestum,“ sagði einn viðmælenda í óformlegri könnun Morgunblaðsins. „Árbæjarlaug ber af öðrum laugum á höfuðborgarsvæðinu. Snyrtilegir úti- og inniklefar, innilaug, fjöldi heitra potta og stórt svæði þar sem hægt er að vera í sólbaði eða slappa af,“ sagði annar sundlaugargestur.
En lítum nú út á land. Krossneslaug í Árneshreppi á Ströndum er í grýttri fjöru í einstæðri náttúru. Myndir af lauginni hafa á seinni árum flogið víða um netheima, sem auðvitað er það sem mest munar um þannig að aðsóknin er mikil. Svo er það Seljavallalaug undir Eyjafjöllum, sem stendur undir hárri klettahlíð sem myndar einn útvegginn. Það gerir sundlaugina eitt eftirtektarverðasta mannvirki landsins.
Sjá umfjöllun um sundlaugar í heild í Morgunblaðinu í dag.