Martröð í mörg ár á eftir

Jarmila Hermannsdóttir hefur búið á Íslandi í 64 ár og …
Jarmila Hermannsdóttir hefur búið á Íslandi í 64 ár og segir hún vera meiri Íslendingur en Þjóðverji. Og jafnvel íslenskari en margur Íslendingurinn. mbl/Arnþór Birkisson

Við byrjum á að fá okkur kaffi,“ segir Jarmíla og hellir sjóðheitu kaffinu í bollana þar sem við sitjum á hlýlegu heimili hennar í Hafnarfirði. Blaðamanni þykir hún búin að hafa heldur mikið fyrir honum með nýbökuðu brauði, köku og heimagerðri sultu, en Jarmíla fullvissar hann um að svo sé ekki.

Jarmíla hefur búið í Hafnarfirði frá árinu 2006 en fram að því hafði hún búið í Reykjavík ásamt eiginmanni sínum, Gunnlaugi Björnssyni, sem nú er látinn. Hún segir að sér hafi ekki litist sérlega vel á það til að byrja með að flytja í Hafnarfjörð en þegar þau hjónin fóru að skoða húsið hafi útsýnið haft sitt að segja.

„Gunnlaugur var alinn upp nálægt sjónum og af æskuheimilinu var útsýni yfir sjóinn. Svo þegar við komum hingað að skoða húsið sagðist Gunnlaugur nú ekki sjá voðalega vel en hann sæi út á sjóinn og höfnina. Þá vissi ég að ég ætti eftir að flytja hingað. Gunnlaugur náði því miður bara að njóta þess að búa hér í einn mánuð því hann lést eftir að hafa fengið heilablóðfall aðeins mánuði eftir að við fluttum inn.“ Þau hjónin höfðu þá verið gift í fimmtíu og eitt ár, en þau kynntust árið 1954, þegar Jarmíla kom hingað til lands frá Þýskalandi til að vinna sem au pair á heimili í Reykjavík.

Stríðsótti og martraðir

Jarmíla fæddist í Þýskalandi 13. ágúst árið 1937, átta árum áður en seinni heimsstyrjöldinni lauk í Evrópu með uppgjöf Þjóðverja. Hún bjó ásamt fjölskyldu sinni í Hamborg, í úthverfi sem hún segir hafa verið í svipaðri fjarlægð frá borginni og er nú frá heimili hennar í Hafnarfirði inn í miðbæ Reykjavíkur.

Hamborg fór illa út úr loftárásum í stríðinu en úthverfið þar sem Jarmíla bjó slapp þokkalega að hennar sögn; að minnsta kosti gatan þar sem hún bjó.

Í lok júlí árið 1943 voru gerðar gríðarlegar loftárásir á Hamborg þar sem talið er að um 42.600 almennir borgarar hafi látið lífið og 37.000 særst. Jarmíla man vel eftir þessum tíma. „Þetta var hryllingur alveg. Ég man að ég var alltaf uppi á háalofti þar sem ég stóð í stiganum til að sjá út um gluggann. Og það var allt rautt. Allt eldrautt. Eldur um allt. Þetta var ekki mjög langt frá okkur. Kannski í tuttugu mínútna göngufjarlægð. Þar byrjaði það og fór þaðan alla leið inn í Hamborg.“

Jarmíla þagnar og fær sér sopa af kaffinu. „Ég fékk sömu martröðina í mörg, mörg ár. Og í mörg ár eftir að ég kom hingað til Íslands. Mig dreymdi alltaf sama drauminn. Ég er niðri í kjallara og heyri drunurnar í sprengjuflugvélunum sem voru að fljúga til Berlínar. Þegar þær komu til baka aftur var ég svo hrædd um að þær myndu kasta niður restinni af sprengjunum. Og þær myndu lenda á húsinu okkar. En þá vaknaði ég alltaf. Áður en vélarnar fóru yfir hjá okkur aftur í vesturátt.“

Barnæskan einkenndist af stríðsótta og ótta við það hvað myndi verða. Og Jarmíla segir að þótt húsið hennar hafi sloppið við að verða fyrir sprengju hafi þó sprengjur fallið í götunni sem hún bjó í.

Alltaf tilbúin að hlaupa niður í kjallara

„Hræðslan var svo mikil,“ segir Jarmíla, „og hún vofði alltaf yfir manni. Á hverri einustu nóttu. Maður fór aldrei í náttföt. Maður var alltaf klæddur og tilbúinn að hlaupa niður í kjallara. Tvisvar fórum við í neðanjarðarbyrgi. Annars niður í kjallara.“

Jarmíla segir móður sína hafa haft það hlutverk að fara upp á þak ef ske kynni að það félli sprengjubrot á húsið og það kviknaði í. „Mamma var tilbúin að slökkva eldinn. Og hún var með ungbarn í þessum aðstæðum ... Svo hljóp mamma aftur niður í kjallara og ég heyri ennþá fótatakið hennar koma niður stigann,“ segir Jarmíla og þagnar stundarkorn. Yngsta systir hennar var aðeins nokkurra mánaða gömul en auk þess átti Jarmíla tvær eldri systur. Fjölskylduna sakaði þó ekki.

Jarmíla segir foreldra sína ekki hafa verið nasista. „Pabbi og mamma voru bæði á móti Hitler og þessu öllu saman.“

Gunnlaugur og Jarmila giftu sig í Þýskalandi 22. desember 1955.
Gunnlaugur og Jarmila giftu sig í Þýskalandi 22. desember 1955. Ljósmynd/Aðsend

„Fólk var bara alveg ga-ga“

Var þetta ekki erfiður tími fyrir þá Þjóðverja sem aðhylltust ekki nasismann? 

„Jú, það var alveg hræðilegt. Mamma til dæmis sagði einhvern tíma við konu sem bjó í götunni að Hitler væri lygari, eða eitthvað álíka. Svo fór mamma heim og hugsaði þá, Guð almáttugur, hvað ef hún segir nú frá þessu. Ef hún kærir mig ... Hvað verður þá? Svo hún fór aftur til nágrannakonunnar og bað hana um að þegja yfir því sem þeim hafði farið á milli. Og þá fór konan að gráta yfir því að mamma skyldi hafa talað illa um Hitler sinn.“ Það hnussar í Jarmílu. „Hugsaðu þér. Fólk var bara alveg ga-ga.“

Nágrannakonan stóð þó við það að þegja yfir þessu og móðir Jarmílu lenti ekki í vandræðum en tilfinningin eftir á segir Jarmíla að hafi verið vond. Og þetta sýni hvað fólk lifði í miklum ótta. „Fólk varð að gera eins og því var sagt. Það þurfti til dæmis að flagga á ákveðnum dögum,“ segir Jarmíla. „Svo þurfti maður að ganga í hús með bauk og safna peningum. Við þurftum líka að safna járnarusli og þess háttar, sem var sjálfsagt notað til að búa til sprengjur.“

Kölluð gleymdu börnin

Seinni heimsstyrjöldinni lauk í Evrópu með uppgjöf Þjóðverja 8. maí 1945 og Jarmíla segir að það hafi auðvitað verið gleðilegt en þó hafi það einnig verið erfitt. „Þá var fyrst erfitt að lifa því það var enginn matur til.“ Talið er að hundruð þúsunda Þjóðverja hafi dáið úr hungursneyð eða úr sjúkdómum af hennar völdum. „Það var ekki heldur neinn hiti og engin kol. Fólk fór að hamstra og stela kolum af járnbrautarvögnunum,“ segir Jarmíla.

„Og við börnin .... Við höfum verið kölluð gleymdu börnin,“ segir hún og þagnar.

Félagsfræðingurinn Christa Müller hefur sagt að það sé einkennandi fyrir kynslóðina sem hefur verið kölluð stríðsbörn að enginn hafi veitt henni athygli fyrr en í kringum 1990, hvorki í vísindalegum rannsóknum né af almenningi. Þá hefur verið sagt að það sé ljóst að þótt börnin sem fæddust milli 1930 og 1945 hafi verið of ung fyrir beina þátttöku í stríðinu hafi þau þó verið nógu gömul til að upplifa hungur, brottrekstur, sprengjuárásir og ótta við dauðann. Þau hafi upplifað það að missa fjölskyldumeðlimi og aðskilnað frá þeim.

Jarmíla segir að hlutirnir hafi farið að breytast til hins betra eftir 1948, þegar þýska markið kom til sögunnar. „Þá fór allt að vera til. Þá sá maður til dæmis í fyrsta skipti appelsínur. Við vorum með eplatré í garðinum en ég hafði aldrei séð appelsínur áður.“

Borgarættin breytti öllu

Á meðan á stríðinu stóð var skólaganga barna í Þýskalandi ekki mikil að sögn Jarmílu, enda voru stanslausar loftárásir. Skólinn sem hún gekk í, Rudolf Steiner Schule, var opnaður aftur í maí 1946.

Þegar Jarmíla var tólf ára las hún Borgarættina eftir Gunnar Gunnarsson. „Þá var ég svo rómantísk að ég ákvað að ég skyldi fara til Íslands einn daginn.“ Jarmíla segir að stelpurnar í bekknum hafi vitað af þessum Íslandsáhuga hennar og þegar hún var sautján ára sagðist ein bekkjarsystir hennar hafa séð auglýsingu þar sem auglýst væri eftir Hausmädchen á Íslandi. „Það þótti voða fínt orð en þýddi auðvitað bara vinnukona. Ég sló til og sótti um.“

Haustið 1954 steig Jarmíla svo fæti á íslenska grund ásamt annarri þýskri stúlku, Elsie að nafni. Ferðalagið var langt. Fyrst tóku þær stöllur lest til Kaupmannahafnar. Þaðan sigldu þær til Íslands og Jarmíla segist hafa verið sjóveik á leiðinni. Einum farþega segist hún muna eftir frá Gullfossi. „Það var Jón Sigurbjörnsson, leikari og söngvari, sem hafði verið í námi í Danmörku. Ég þekkti hann ekkert en mundi eftir honum þegar ég sá hann seinna á sviði.“

Jarmíla segir foreldra sína ekkert hafa getað sagt við því þegar hún tilkynnti þeim að hún væri að fara til Íslands að vinna því hún hefði lengi verið búin að tala um að einn daginn ætlaði hún að láta verða af því að fara þangað. „Mamma hafði alltaf sagt að þetta væru bara draumórar í mér sem yrðu aldrei að veruleika. Svo hún gat ekkert sagt. En hún varð alveg vitlaus seinna meir þegar ég ætlaði að fara að setjast að á Íslandi og ná mér í gamlan mann,“ segir Jarmíla og hlær. „Það fannst henni alveg hræðilegt.“

Jarmíla fór til fjölskyldu í Reykjavík en Elsie í Kópavog. „Ég vann hjá hjónunum Ingunni Erlendsdóttur og Borgþóri Björnssyni. Þau áttu fjögur börn. Ég var vinnukona hjá þeim í heilt ár.“ Hún segir að þetta hafi verið vinna en hjónin hafi verið góð við sig. Hún hafi fengið frí eftir hádegi á miðvikudögum og annan hvern sunnudag. „Á miðvikudögum fór ég oft að heimsækja Elsie í Kópavoginn. Annars hafði ég ekki mikið samband við aðrar þýskar stúlkur sem voru hér.“

Lærði að borða súrt slátur

Á þessum tíma var algengt að hingað kæmu þýskar stúlkur og ynnu sem vinnukonur hjá heldra fólki, fólki sem hafði efni á því. „Og hafði herbergi fyrir þær,“ segir Jarmíla. Hún hafi þó ekki haft herbergi hjá fjölskyldunni til að byrja með heldur sofið á skrifstofunni, en svo hafi hún fengið herbergi í kjallaranum.

Fékkstu aldrei heimþrá?

„Nei, ég var ekki með heimþrá, en ég saknaði kannski ákveðinna hluta að heiman, til dæmis matarins. Mér fannst íslenski maturinn ekki upp á marga fiska til að byrja með. En ég vandist þessu fljótt. Ég lærði að borða súrt slátur fyrsta veturinn minn á Íslandi. Húsmóðirin mín gerði slátur og mér þótti það æðislega gott. Og mér þykir enn þann dag í dag súr blóðmör miklu betri en súr lifrarpylsa.“Jarmíla segir að sér hafi gengið ágætlega að læra íslenskuna. „Ég las dálítið mikið. Og las unglingabækur sem höfðu verið þýddar yfir á íslensku; til dæmis bækur eftir norska höfundinn Margit Ravn.“

Hefði ekki snúið til baka

Sumarið eftir komuna til Íslands var Jarmíla send norður í land til að passa, þar sem hún dvaldi frá því í maí fram í ágúst. „Við flugum til Kópaskers og þar tók á móti okkur bóndi sem keyrði okkur á sveitabæinn þar sem við áttum að dvelja, Grjótnes.“ Jarmílu leist ekkert á blikuna á meðan á bílferðinni stóð og segist hafa spurt sig hvert í ósköpunum hún væri eiginlega komin. Þar sem hún horfði út um gluggann sá hún ekkert nema sand, en það hafi þó strax verið aðeins betra þegar hún hafi séð til sjávar. Bóndinn sem keyrði var fámáll og Jarmílu fannst bílferðin engan endi ætla að taka. Loksins komu þau þó á leiðarenda. Í hlaðinu stóðu meðal annarra tveir menn sem Jarmílu fannst alveg nákvæmlega eins, en það voru eineggja tvíburabræðurnir Gunnlaugur og Björn Björnssynir. Og öðrum átti Jarmíla eftir að giftast.

„Það voru þarna tvö hús; annað var reisulegt timburhús og hitt steinhús, og þar bjó ég. Í steinhúsinu bjuggu þrír bræður ásamt föður sínum og systur. Hún hafði reyndar gifst manni og flutt til Raufarhafnar en fannst hún þurfa að sinna bræðrum sínum og föðurnum. Tveir bræðranna voru bændur en sá þriðji var smiður sem kom bara um helgar.“

Jarmíla segist hafa notið dvalarinnar á Grjótnesi. Hún hafi vissulega unnið mikið en sér hafi þótt gaman að vinna og vera úti. Enda hafi veðrið verið gott. „Þetta sumar var veðrið dásamlegt allan tímann; bara eins og er búið að vera fyrir norðan núna. Mér fannst svo gaman! Það var aldrei myrkur. Og það var svo dásamlegt að heyra í fuglunum og æðarfuglinum.“

Jarmíla sneri aftur suður í lok sumars 1955. Gunnlaugur fór með henni til Reykjavíkur, þar sem hann vann við byggingarvinnu en Jarmíla vann ennþá hjá þeim Ingunni og Borgþóri. Þegar ráðningartíma hennar lauk hjá þeim hjónum ætlaði Jarmíla að fara aftur til Þýskalands og fá leyfi hjá föður sínum til að giftast Gunnlaugi. Til stóð að hún færi ein. En mágur Gunnlaugs sagði honum að fara með henni því annars myndi hún örugglega ekki snúa aftur til Íslands. „Og ég held að þetta hafi verið alveg rétt hjá honum. Ég hef reyndar ekki hugsað um þetta fyrr en nú nýlega. En þetta er ábyggilega rétt. Ég hefði örugglega ekki farið aftur til Íslands nema út af því að Gunnlaugur kom með mér út. Mamma hefði hamrað stöðugt á mér að vera áfram í Þýskalandi og ég hefði látið undan því,“ segir Jarmíla.

Mágur Gunnlaugs var staðfastur í að þetta samband þeirra Jarmílu og Gunnlaugs skyldi endast því hann útvegaði þeim far með togara til Þýskalands og keypti fyrir þau flugmiða til Íslands þremur vikum síðar. Þau giftu sig svo í Hamborg 22. desember 1955.

Hjónin nýgiftu voru ákveðin í að flytja aftur heim til Íslands og segir Jarmíla að það hafi aldrei neitt annað komið til greina.

Eftir um það bil þriggja vikna dvöl í Þýskalandi héldu Jarmíla og Gunnlaugur aftur til Íslands og bjuggu á Grjótnesi næstu fjögur árin. Þaðan fluttu þau til Kópaskers, þar sem þau bjuggu í þrjú ár. Tvö eldri börn Jarmílu og Gunnlaugs, Björn og Herdís, fæddust á Grjótnesi með tveggja ára millibili, 1956 og 1958, en þriðja barnið, Hermann, fæddist í Reykjavík árið 1966. Jarmíla segir fólk hafa fengið ákveðnum símatíma úthlutað og það var heppilegt að hún gat hringt í ljósmóður þegar Herdís fæddist, en þá var Jarmíla orðin veik. „Ljósmóðirin var á næsta bæ að taka á móti svo ég hringdi þangað til að athuga hvort hún væri að fara heim, en ljósmóðirin bjó á Kópaskeri. Ég sagði að líklega þyrfti ég á henni að halda. Hún kom til mín um kvöldið og Herdís fæddist sama kvöld.“

Greinin í heild birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka