Vísar ávirðingu minnihluta til föðurhúsanna

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs og varaformaður Samfylkingarinnar.
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs og varaformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Golli

Ekkert sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu stendur jafnmyndalega að uppbyggingu félagslegs húsnæðis og Reykjavíkurborg. Þetta segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs og varaformaður Samfylkingarinnar, á Facebook-síðu sinni í tilefni af yfirlýsingu sem minnihlutinn í borgarstjórn og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR sendu frá sér í dag.

Segir Heiða Björg í færslu sinni að Reykjavíkurborg hafi úthlutað lóðum og greitt stofnframlög með yfir 1.000 íbúðum óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga, líkt og komið hafi skýrt fram í þættinum Vikulokunum á Rás 1 í morgun. Lóðum hafi m.a. verið úthlutað til Bjargs, byggingarfélags launafólks. „Að halda öðru fram stangast á við staðreyndir eins og sjá má í meðfylgjandi umsögn fjármálastjóra Reykjavíkurborgar og á meðfylgjandi mynd,“ segir Heiða Björg.

„Það er beinlínis rangt að byggingarréttargjald standi í vegi fyrir byggingu félagslegs húsnæðis eins og fram kemur einnig í meðfylgjandi umsögn fjármálastjóra Reykjavíkur. Staðreyndin er sú að ekkert sveitarfélag í landinu stendur eins myndarlega að uppbyggingu félagslegs húsnæðis og húsnæðis í samvinnu við verkalýðshreyfinguna og húsnæðisfélög sem ekki eru rekin i hagnaðarskyni, og Reykjavík gerir. Ef önnur sveitarfélög á höfuðborgasvæðinu kæmu að þessu málum með jafnöflugum hætti og Reykjavík væri hér enginn húsnæðisvandi.“

Hún vísaði því ávirðingum minnihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur til föðurhúsanna í einu og öllu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert