Helena Jónsdóttir, skólastjóri Lýðháskólans á Flateyri, segir gríðarlega spennandi tíma fram undan, en fyrsta kennsluár skólans hefst í haust. „Þessu fylgir mannlíf og það skapar grundvöll til þess að halda uppi reglubundinni þjónustu eða afþreyingu,“ segir hún í samtali við mbl.is.
Rekstur skólans mun hafa í för með sér mikla fólksfjölgun á Flateyri að sögn Helenu. „Það eru 167 [íbúar á Flateyri] síðast þegar ég gáði og nemendur plús fjölskyldur, sumir eru að koma með maka og eða börn, gera það að verkum að íbúafjöldin eykst um 20 prósent. Þetta mun setja gríðarlegan svip á þorpið. Ég veit ekki hverjir hlakka til meira, íbúar eða nemendur.“
Átta bætast við í leik- og grunnskóla bæði vegna nemenda og eins starfsmanns. „Allt þetta styrkir grundvöll fyrir alla starfsemi og þjónustu sem hér getur hugsast,“ segir Helena.
„Þetta er skóli sem er settur af stað fyrir sjálfsaflafé, þannig að við veltum hverri krónu fyrir okkur og hér hefur fólk gefið okkur bæði efni og vörur. Vörubílstjórinn á svæðinu tekur sig til og nær í dót og hendir því til okkar, svo er burðarfólk út um allan bæ að bera fyrir okkur. Þetta þarf heilt þorp til þess að búa til lýðháskóla,“ segir Helena og hlær.
Helena segir margt fólk hafa sýnt skólanum áhuga þótt það sæki ekki endilega skólann þetta fyrsta starfsár hans. „Fólk hefur haft samband til þess að skoða þetta sem kost fyrir sig, fyrir börnin sín og svo ömmur og afar eru að hringja frá Kanada,“ staðhæfir Helena.
Spurð um áhugann frá Kanada segir hún um að ræða Vestur-Íslendinga sem hafa séð þetta sem tækifæri til þess láta barnabörnin kynnast Íslandi.
Ekki er sérstök heimavist byggð fyrir skólann heldur er notað húsnæði sem yfir sumartímann er hugsað fyrir erlenda ferðamenn sem sækjast í sjóstangveiði. „Þetta er bara eins og hin besta heimavist í nýjum húsum,“ segir Helena.
Örfá pláss er enn laus við skólann og hefur hann því ekki lokað fyrir umsóknir þrátt fyrir að umsóknarfrestur hafi runnið út í júní.