Fimm líkamsárásir komu inn á borð lögreglu í Vestmannaeyjum um helgina. Alvarlegasta árásin var spark í líkama sem olli innvortis blæðingum og var árásarþoli fluttur með sjúkraflugi til aðhlynningar á Landspítalanum. Önnur alvarleg líkamsárás olli nefbroti og aðrar þrjár minni háttar áverkum. Kærur liggja fyrir í tveimur brotanna. Ein árásin var heimilisofbeldismál þar sem gerandi og þolandi eru tengdir aðilar. Önnur brot voru sex eignaspjöll, fimm auðgunarbrot, eitt húsbrot, ein hótun, fimm áfengislagabrot, fjórir fíkniefnaakstrar og einn ölvunarakstur.
Þá eru þrjú kynferðisbrot til rannsóknar hjá lögreglu eftir helgina. Kona varð fyrir kynferðislegri áreitni á bílastæði í Herjólfsdal að kvöldi laugardags. Í hinum tveimur er uppi grunur um misneytingu. Kærur liggja ekki fyrir í málunum.
Lögreglan í Vestmannaeyjum birti færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hún fór yfir atburði og verkefni helgarinnar. Þar kemur fram að verkefni í tengslum við þjóðhátíð hafi verið fjölmörg, en vel hafi gengið að leysa úr þeim. Að mati lögreglu gekk löggæsla vel og voru bæði lögregla og gæslumenn áberandi í Herjólfsdal og stutt í aðstoð.
Viðbragð í sjúkraskýli, hjá áfallateymi og barnavernd var gott og var fjölmörgum sinnt vegna mismunandi erfiðleika. Veður setti strik í reikninginn á sunnudagskvöld og aðfaranótt mánudags en þjóðhátíðargestir voru almennt vel búnir og vel gekk að koma fólki í skjól í íþróttahúsi sem þurfti á því að halda. Lögregla þakkar viðbragðsaðilum fyrir gott samstarf vegna þjóðhátíðar sem er jafnan stærsta löggæsluverkefni lögreglunnar á ári hverju.