Haldið í um fimm klukkustundir

Anna Margrét Pétursdóttir á átakasvæðinu við landamæri Ísraels og Palestínu.
Anna Margrét Pétursdóttir á átakasvæðinu við landamæri Ísraels og Palestínu. Ljósmynd/Aðsend

„Við vorum að mótmæla til þess að sýna samstöðu og berjast gegn mannréttindabrotum og umsátursástandinu sem hefur verið í tólf ár í Gaza,“ segir Anna Margrét Pétursdóttir, 24 ára aðgerðasinni, í samtali við mbl.is.

Anna Margrét var handtekin sl. föstudag af ísraelska hernum og lögreglunni við landamæri Ísraels og Palestínu á Gaza-ströndinni, þar sem hún var að eigin sögn við friðsamleg mótmæli sem hluti af hópi ísraelskra og alþjóðlegra aðgerðasinna.  

Anna Margrét segir að sér hafi ekki verið sleppt úr haldi eftir eina klukkustund eins og upp­lýs­inga­full­trúi ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins sagði í sam­tali við mbl.is heldur hafi handtakan staðið yfir í um fimm klukkustundir. 

Aðgerðasinnar hafa meðal annars reist fána Palestínu við landamærin.
Aðgerðasinnar hafa meðal annars reist fána Palestínu við landamærin. Ljósmynd/Aðsend

Herinn tilbúinn að beita ofbeldi

Anna Margrét hefur verið við landamærin síðan í lok júní á veg­um sam­tak­anna In­ternati­onal Soli­da­rity Mo­vement til þess að mótmæla ástandinu á svæðinu. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem framkvæmd er handtaka á hópnum á meðan hún dvelur þar en hún segir að ísraelska lögreglan hafi í þetta sinn verið tilbúin til þess að beita ofbeldi í meira mæli en áður. 

„Hermennirnir réðust að okkur og beittu einhver af okkur mismiklu ofbeldi. Það var bundið fyrir augun, bundið fyrir hendur á ísraelsku vinum mínum og þeir voru barðir af hermönnunum. Þá var ensk stelpa í hópnum snúin niður,“ segir Anna Margrét en mótmælendahópurinn samanstóð auk hennar af ísraelskum andspyrnumönnum og breskum aðgerðasinnum.

Anna Margrét Pétursdóttir.
Anna Margrét Pétursdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Öllum pakkað saman í lítið herbergi

„Eftir [handtökuna] hélt herinn okkur í meira en klukkustund á meðan þeir voru að ákveða hvað þeir ættu að gera við okkur. Síðan vorum við færð á lögreglustöð þar sem okkur var haldið og við yfirheyrð. Í heildina var okkur haldið þarna í yfir fimm klukkustundir,“ segir Anna Margrét. „Okkur var pakkað saman í eitthvert lítið herbergi, ellefu eða tólf saman, og vorum tekin í yfirheyrslur eitt og eitt.“

Hún segir að þó svo að mótmælendurnir hafi verið beittir harðræði þá sé það henni efst í huga að þetta sé eitthvað sem Palestínumenn þurfi að upplifa á hverjum degi. Því hafi hún ekki verið hrædd um líf sitt. „Það versta sem getur komið fyrir mig er að vera send úr landi, þannig að ég var bara mjög róleg,“ segir Anna Margrét. 

Anna Margrét segir markmið sitt með dvölinni, auk þess að sýna samstöðu og vinna með samtökunum, að miðla reynslunni til Íslendinga þegar hún kemur heim. „Aðalmarkmiðið mitt er að sýna Íslendingum hvað er í gangi, hvetja fólk til þess að sniðganga vörur frá Ísrael og sniðganga Eurovision,“ segir Anna Margrét að lokum. 

Anna Margrét setur upp fána í mótmælaskyni á svæðinu.
Anna Margrét setur upp fána í mótmælaskyni á svæðinu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert