Sóknarnefnd Hríseyjarkirkju tekur nú til endurskoðunar áður frjálslegan aðgang listafólks og ferðamanna að kirkjunni. Það er í kjölfar gjörnings Snorra Ásmundssonar listamanns, sem hefur vakið hörð viðbrögð.
Fréttablaðið greindi fyrst frá.
Snorri Ásmundsson deildi í beinni útsendingu á Facebook „fallegri messu“ sem hann hélt í Hríseyjarkirkju. Gleðileikur sá varð sorgarleikur fyrir suma, sem þótti hann spilla helgi staðarins og sýna persónulegum munum fólks virðingarleysi.
Narfi Björgvinsson, formaður sóknarnefndar Hríseyjarkirkju, segir þetta leiðinlegt mál í samtali við mbl.is. „Þegar maður veitir leyfi til tónleikahalds í kirkjunni á maður ekki von á að fólk gangi í muni og eigur annarra og noti það eftir geðþótta og í leyfisleysi,“ segir hann.
„Nú verður að endurskoða undir hvaða formerkjum kirkjan er lánuð. Ég kveikti ekki á hvað væri í vændum þarna og það snerist upp í þennan, ja, eigum við ekki að kalla hann gjörning. Ég dæmi svo sem ekki eitt eða neitt. Hann bara gekk of langt,“ segir Narfi, daufur í dálkinn að heyra.
„Kirkjan er vinsæl og hefur verið opin án eftirlits, fyrir til dæmis ferðamenn. Hún var alltaf opin frá eitt til fimm. Það kemur högg við þetta, sem er synd.“
Snorri Ásmundsson lítur málið síður alvarlegum augum. „Ég var ánægður að fá að vera með kirkjuna og ákvað að vera með messu. Við fengum kirkjuna með því eina skilyrði að skila henni í sama ástandi og það gerðum við,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Spurður hvort hann iðrist gjörða sinna segist Snorri ekki sjá ástæðu til þess. „Auðvitað fór ég inn á viðkvæmt svæði. Ég vissi alveg hvað ég var að gera. En viðbrögð fólks eru ýmis og listamaður getur ekki einn borið ábyrgð á þeim.“
Um það hvort listamaðurinn sé kristinn sjálfur fengust helst til ónákvæm svör. „Þegar maður veit, fær maður ekki að trúa. Kristni er bara ein mynd af guði, eða æðri mætti. Trúarbrögð eru aðeins búningur utan um almættið. Mína tengingu við máttarvöld þarf ég ekki að skreyta með trúarbrögðum.“