Íbúar sjá fram á rafmagnslausa nótt

Hveragerði.
Hveragerði. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er að verða ófremdarástand. Það er allt rafmagnslaust. Við erum að heyra fréttir af því að það sé ekki að koma rafmagn í bráð,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, en rafmagnsbilun kom upp í bænum um kl. 15 í dag í afveitustöð og hefur rafmagn ekki komist á enn eftir bilunina.  

Aldís segir að bilunin sé mun alvarlegri en á horfðist í byrjun. „Það virðist sem svo að Hvergerðingar geti búist við því að það verði rafmagnslaus nótt fram undan,“ segir Aldís.

Þjónusta lagst af í bænum

Hún segir að ekki sé enn að fullu ljóst hvað rafmagnsskorturinn þýði fyrir bæjarbúa. „Maður uppgötvar það eiginlega ekki fyrr en maður lendir í þessu. Það er hreinlega allt okkar líf með rafmagni og fólk nær ekki í útvarpið nema það eigi batterísútvörp eða fari út í bíl. Það er erfitt að miðla upplýsingum til fólks því að tækin okkar ganga fyrir rafmagni,“ segir Aldís.

Rafmagnsleysið hefur mikil áhrif á þjónustu og iðnað í bænum, svo sem Hótel Örk sem hefur að geyma á annað hundrað herbergja. „Ég var að tala við þau á Hótel Örk, þar er erfitt ástand. Allt er fullt af gestum, 2-300 manns, allir í kvöldmat og það er ekki einfalt, þeir eru búnir að loka fyrir alla lausatraffík svo þeir eru bara að reyna að gefa sínum gestum að borða.“

Hún segir þá að öll þjónusta í bænum hafi lagst af í dag vegna ástandsins. „Verslanirnar, sjoppurnar og bensínstöðvarnar eru lokaðar því það er ekki hægt að gera neitt. Greiðslukerfið liggur niðri og bensíndælurnar ganga fyrir rafmagni. Sem betur fer erum við með eitt vatnsból sem komst á samband við núna fyrir ekki svo löngu þannig að vonandi sleppum við við vatnsskort. Þetta er líka kvöld, þannig að það bjargast hugsa ég. Þetta er bara mjög erfitt ástand,“ segir Aldís. 

Bæjarstarfsmenn boðaðir til fundar

Aldís segir þó að náðst hafi að tengja Kjörís og verslunarmiðstöðina í bænum. Það sé mikilvægt því mikið magn frysta og kæla sé í þeim húsnæðum sem innihéldu vörur sem áttu í hættu á að skemmast. Hún kveðst ekki muna eftir því að rafmagnsleysi hafi verið svo mikið í bænum í hennar tíð. „Þetta er auðvitað grafalvarlegt þegar maður verður vitni að því hversu viðkvæmt þetta kerfi okkar er,“ segir Aldís.

Aldís segir að hún hafi boðað bæjarstarfsmenn til fundar í fyrramálið vegna ástandsins. Þar verði rætt hvernig megi betur bregðast við slíkum bilunum og eins verði rætt við Orkuveitu Reykjavíkur um það hvort koma megi á frekara varaafli á kyndistöðinni svo að bærinn verði ekki hitalaus í slíkum aðstæðum. 

Dvalarheimilið Ás og Heilsustofnunun Náttúrulækningafélags Íslands búa yfir eigin vararafmagni, en Aldís segir þó að óumflýjanlega verði tjón í bænum vegna rafmagnsleysisins. „Við verðum bara að hvetja íbúa til þess að opna alls ekki frystikisturnar hjá sér núna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert