Bæjarstjórinn í Hveragerði segir mikilvægt fyrir öll sveitarfélög að nota þá umræðu sem skapast hefur í kringum rafmagnsleysið í bænum á þriðjudag til að fara yfir sín mál og kanna hvernig þau eru í stakk búin að takast á við slíka atburði. Bæjarstjórn Hveragerðis hefur fundað vegna málsins og kannar nú möguleika á varaaflgjöfum fyrir stofnanir bæjarins. Bæjarstjórinn segir einnig mikilvægt að efla upplýsingagjöf til íbúa í slíkum aðstæðum.
Rafmagn fór af í Hveragerði um klukkan 15 á þriðjudag vegna bilunar í aðveitustöð í bænum í kjölfar þess að rafmagnsstrengur var grafinn upp. Íbúar voru meira og minna rafmagnslausir fram að miðnætti, en þá var rafmagni komið á með varaafli frá Rarik á Selfossi og Þorlákshöfn. Bilunin varð til þess að skipta þurfti um aflspenni í spennustöðinni og var því lokið síðdegis í gær. Ófremdarástand skapaðist í bænum og rafmagnsleysið hafði mikil áhrif á þjónustu og iðnað. Þjónusta lagðist í raun alveg af síðdegis á þriðjudag enda öll greiðslu- og upplýsingakerfi tengd rafmagni.
„Það getur enginn mannlegur máttur komið í veg fyrir að svona gerist, en auðvitað er hægt að grípa til aðgerða og ég geri ráð fyrir að flestir íhugi sinn gang. Kanni til dæmis hvort það sé ekki eðilegt að hafa aðgang að varaaflgjöfum, þá fyrirtæki, hótel og veitingastaðir. Þó sé ekki nema bara að kortleggja hvaða verktakar og fyrirtæki eiga svoleiðis lagað. Það væri þá hægt að flytja það á milli því það er auðvitað dýrt að liggja með varaaflstöðvar sem sjaldan eða aldrei þarf að nota. Það er heldur ekki sérstaklega mikið öryggi í þeim nema þær séu settar í gang reglulega,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, í samtali við mbl.is.
Hún segir bæjarfélagið hafa farið yfir stöðuna og sé að kanna þetta mál gagnvart sínum stofnunum. Þá hafi forstjóri Rarik komið á fund bæjarstjórnar í gærmorgun og farið yfir atburðinn. „Við viljum meðal annars draga þann lærdóm af þessu að það er mjög mikilvægt að koma upplýsingum eins og vel og hægt er og eins oft og hægt er til íbúa þegar svona gerist.“
Aldís segir það hafa tekist ágætlega á þriðjudaginn, en SMS-skilaboðin hefðu þó mátt vera fleiri og upplýsingarnar ítarlegri. „Til dæmis þegar það lá fyrir að við vorum að horfa á alvarlegan atburð og það lá fyrir að rafmagnsleysið myndi vara nokkra klukkutíma til viðbótar. Þau skilaboð hefðu mátt fara út í SMS-i. Það er svo mikilvægt að hafa í huga að þegar rafmagnið fer þá eru miðlarnir mjög erfiðir. Fólk hefur ekki aðgang að interneti, nema mjög takmarkað. Það þarf að notast við útvarpsstöðvarnar, ef fólk er með batteríisútvarp og SMS-skilaboðin,“ segir Aldís „Á Íslandi ættu allir að eiga batteríisútvarp, ef eitthvað svona gerist,“ bætir hún við.
„Rauði krossinn hefur gefið út leiðbeiningar um viðlagakassa sem allir eiga að hafa heima hjá sér og þetta er eitt af því sem á að vera þar. Svo er voða gott að hafa vasaljós á vísum stað svo það þurfi ekki að leita út um allt að því. Við vorum bara heppin að þetta gerðist um sumar. Við búum bara við þær aðstæður að við getum átt von á einhverju svona og þá þurfum við að eiga að lágmarki þetta. Við þurfum að geta fengið upplýsingar með öruggum hætti og hafa vasaljósið á vísum stað.“
Aldís segir svo auðvitað mikilvægt að reyna að gæta þess að svona lagað gerist ekki aftur. Það sé mikilvægt að vanda til vinnu umhverfis jarðstrengi. „Það var reyndar ekki verktakanum um að kenna í þetta skipti. Rarik var búið að gefa grænt ljós á vinnu á þessari lóð. Verktakinn vissi ekki að það væri þarna strengur. Þetta voru í raun bara ófyrirséðir atburðir,“ segir Aldís en samkvæmt upplýsingum frá Rarik hefði spennirinn í aðveitustöðinni átt að þola bilunina sem kom upp. Ekki er vitað hvers vegna hann gerði það ekki.
„Þetta er ágætisáminning um það hvað við erum háð rafmagninu. Það er afskaplega skynsamlegt fyrir alla, ekki bara Hvergerðinga heldur öll bæjarfélög, að nota þessa umræðu sem er í gangi núna til að fara yfir sín mál. Kanna hvernig væri staðan ef rafmagnið færi af sveitarfélaginu í hálfan eða heilan sólarhring. Við þurfum öll að vera viðbúin svoleiðis aðstæðum búandi á landi náttúrhamfara og óvæntra viðburða. Það er reynslan sem við tökum með okkur úr þessu,“ segir Aldís að lokum.