„Manni stóð alls ekki á sama“

Vél Air Iceland Connect lendir í Reykjavík. Mynd úr safni.
Vél Air Iceland Connect lendir í Reykjavík. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var mjög skrítið. Hann sagði, karlinn við hliðina á mér, að það væri slökkt á öðrum hreyflinum og þá varð maður hálfsmeykur. Manni leist svona ekkert á þetta,“ segir Guðmundur Andri Bjarnason. Guðmundur var um borð í vél Air Iceland Connect á leið til Egilsstaða í dag þegar vélin neyddist til að snúa við vegna bilunar í hægri hreyfli.

„Flugið til baka var ekkert spes. Það kom ákveðið högg í vélina og þá leist okkur ekkert á blikuna. Þá þögnuðu allir,“ segir Guðmundur.

44 farþegar auk áhafn­ar voru um borð í vél­inni sem var á leið til Eg­ilsstaða. Viðbragðsaðilar voru kallaðir til og gekk vinna þeirra vel fyr­ir sig að sögn lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu, en vél­in lenti á Reykja­vík­ur­flug­velli á öðrum hreyflinum og eng­an sakaði.

Spurður um viðbrögð annarra farþega segir Guðmundur að fólki hafi ekki litist á blikuna. „Ég held að flestir hafi bara setið skíthræddir.“

Þá segir Guðmundur að það hafi ekki farið á milli mála að ekki væri um venjulega ókyrrð að ræða. „Þetta var voðalega skrýtið. Við svifum svona eiginlega niður. Manni stóð alls ekki á sama.“

Farþegum stóð til boða að fljúga til Egilsstaða klukkan hálffimm í dag og samkvæmt Árna Gunnarssyni, framkvæmdarstjóra Air Iceland Connect, þáðu farþegarnir allir það boð.

„Það var eiginlega ekkert annað í boði. Við erum að fara keppa hérna í golfi á morgun svo maður lét sig hafa það,“ segir Guðmundur.

Ætla má að rann­sókn­ar­nefnd sam­göngu­slysa hefji von bráðar rann­sókn á mál­inu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert