Vísindamenn telja sig nú hafa leyst ráðgátuna um byggð norrænna manna á Grænlandi á miðöldum. Sögu þessara norrænu byggða má rekja til útlegðar Eiríks rauða frá Íslandi á 10. öld en hann flúði til Suðvestur-Grænlands og stofnaði fyrstu norrænu byggðirnar þar í landi.
Í yfir 200 ár voru þar tvær stærri byggðir með samanlagt tvö þúsund íbúa sem bjuggu við góðan kost. Það hefur lengi verið vísindamönnum ráðgáta hvernig byggðir þessar hafi blómstrað líkt og raun ber vitni, en talið er að á tímabili hafi samfélögin haldið uppi nokkrum kirkjum, klaustri og jafnvel biskupi.
Rostungsbein voru eftirsótt vara meðal ríkra Evrópubúa á miðöldum en úr þeim voru unnin ýmsir handverksmunir. Í nýrri rannsókn rannsakenda úr háskólunum í Cambridge og Osló, sem greint er frá á vef Science Daily, kemur fram að á blómatíma norrænu samfélaganna í Grænlandi, frá 1120-1400, hafi að minnsta kosti 80% rostungsbeina verið flutt beint frá Grænlandi til Evrópu, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.