„Ef það er sjálfbært, þá veiðir maður,“ segir Kristján Loftsson, eigandi Hvals hf., í viðtali við New York Times. Þar ver Kristján umdeildar hvalveiðar fyrirtækisins.
„Auðvitað getur maður gert eitthvað annað en af hverju ætti ég að hætta þessu? Það er ekkert rangt við þetta,“ segir Kristján sem vill meina að það sé ekkert að því að veiða hval.
Enn fremur segir Kristján að hann sjái enga ástæðu til að hætta veiðum, þrátt fyrir að þeim sé mótmælt víðs vegar í heiminum.
Tryggvi Aðalbjörnsson, blaðamaður og fyrrverandi fréttamaður hjá RÚV, skrifar um Kristján og hvalveiðar Íslendinga. Fjallað er um að Kristján hafi í gegnum árin staðið í stappi við alþjóðleg dýraverndunarsamtök en þrátt fyrir það beri flestir virðingu fyrir honum.
„Ef þú spyrð hann spurningar þá svarar hann þér iðulega. Hann stoppar oft og hugsar málið áður en hann talar. Við sjáum þetta ekki oft,“ segir Robert Read, framkvæmdastjóri Shea Shephard í Bretlandi, um Kristján.
Jarðvinir lögðu í fyrradag fram kæru til ríkissaksóknara á hendur Hval hf. „Það er nokkuð síðan það kom í ljós að eitt af veiðiskipum Hvals hf. hafði skotið blendingshval. Í framhaldi af því þá litu menn að því hvort hægt væri að fella slíka blendinga undir það veiðileyfi sem Hvalur hf. hefur og undir lög og reglugerðir um hvalveiðar við Íslandsstrendur. Niðurstaðan var sú að það væri engin undanþága, það væri bara heimilt að veiða langreyðar og ekkert annað,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, lögfræðingur Jarðarvina, við mbl.is í gær.
Umfjöllun New York Times má nálgast hér.