Vonandi stolið „á réttum forsendum“

Styttan Landamæri eða Borders var fyrst sett upp við Sameinuðu …
Styttan Landamæri eða Borders var fyrst sett upp við Sameinuðu þjóðirnar í New York. Baton Rouge var sjötti sýningarstaður verksins. Ljósmynd/Murray Head

„Þetta er hið furðulegasta mál,“ segir listakonan Steinunn Þórarinsdóttir. Styttu eftir hana, sem var hluti af verkinu Landamæri eða Borders, var stolið úr miðbæ Baton Rouge í Louisiana. Styttan vegur rúmlega 181 kíló og hafði verið boltuð niður á bekk.

„Ég hef lent í þessu áður nokkrum sinnum, þannig að ég er orðin vön,“ segir Steinunn. Verki eftir hana var stolið í Kaupmannahöfn fyrir þremur árum og auk þess var verki stolið í Hull í Bretlandi árið 2011.

„Verkið í Kaupmannahöfn fannst á svölum hjá manni en verkið í Hull fannst aldrei. Menn telja sig samt vita hver gerði það og fundu leifar af bronsdufti í bíl en höfðu ekki nógu mikið af sönnunum.“

Eftirmynd var gerð af verkinu úr Hull sem aldrei fannst en það var annar hluti verks sem gert var til minningar um breska sjómenn á Íslandsmiðum. Hinn hlutinn var staðsettur í Vík í Mýrdal.

Steinunn Þórarinsdóttir listakona.
Steinunn Þórarinsdóttir listakona. mbl.is/Ómar Óskarsson

Steinunn segist ekki hafa neinar kenningar um hvað hafi orðið um Landamæri. „Þetta er ótrúlegt af því að verkið er svo þungt og það er ekki mjög auðvelt að komast að því á faratæki. Menn standa á gati,“ segir Steinunn en bætir við að málið sé rannsakað vestanhafs:

„Það er biðlað til almennings að koma fram ef fólk veit eitthvað og þá fara hlutirnir oft að gerast. Vonandi kemur í ljós hvað gerðist. Atburðurinn er nú kominn á Crime Stoppers en það er fyrirbæri sem vinnur að því að upplýsa sakamál og boðið er lausnargjald til að endurheimta verkið.“

Fram kemur í bandarískum miðlum að líklega hafi styttunni verið stolið í mars eða apríl. „Þetta uppgötvaðist fyrir þremur vikum og síðan hefur verið langt ferli hvernig eigi að taka á málinu. Væntanlega hafa þeir skoðað upptökur frá svæðinu og telja að það sé lengra um liðið síðan styttunni var stolið. Það er langt síðan og gerir málið erfiðara.“

Steinunn vonast til þess að verkum hennar sé stolið „á réttum forsendum“. 

„Ein sýn á þetta er sú að ég er með svo mikið af verkum í almannarýmum. Yfirleitt er auðvelt að nálgast verkin, fólk getur nálgast þau óheft. Ég vona að þetta sé ást á listinni. Verður maður ekki að reikna með því?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert