Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga, segist mjög bjartsýnn fyrir þau miklu hátíðahöld sem fram undan eru í dag en hin árlega gleðiganga verður gengin frá Hörpu í dag kl. 14 og endar með hátíðahöldum í Hljómskálagarði þar sem allir eru velkomnir til þess að fagna fjölbreytileikanum.
Gunnlaugur segir að fólk á höfuðborgarsvæðinu þurfi líklegast að hafa sig allt við ætli það að missa af gleðinni og litadýrðinni sem verður ríkjandi í borginni í dag. „Vikan er öll búin að vera alveg glimrandi. Það er búinn að vera fjöldi viðburða vítt og breytt um borgina og búið að vera nóg að gera. Í dag er stóri dagurinn, dagurinn sem ætti ekki að fara fram hjá neinum. Það þarf alveg að hafa fyrir því að missa af honum,“ segir hann hlæjandi.
Gangan verður venju samkvæmt íburðamikil, litrík og full af gleði þar sem yfir 30 stórir hópar verða með sjálfstæð atriði í göngunni. Gunnlaugur segir að hóparnir leggi mikinn metnað í að undirbúa sig fyrir gönguna og býst ekki við að nokkuð verði gefið eftir miðað við síðustu ár.
„Ég hef heyrt að það er mikill metnaður í fólki og nokkrir stórir hópar sem eru að taka þátt saman og fjöldinn er svipaður og hefur verið. Hóparnir eru eitthvað ríflega 30 núna sem eru með formlega þátttöku í göngunni en síðan eru auðvitað allir velkomnir að koma og fylgjast með og slást í hópinn í lok göngu og þramma með okkur í Hljómskálagarðinn,“ segir Gunnlaugur.
Gangan hefst klukkan 14:00 við Hörpu og verður gengið eftir Kalkofnsvegi, Lækjargötu, Fríkirkjuvegi og Sóleyjargötu en þá taka við útitónleikar í Hljómskálagarðinum.
Gunnlaugur segir að markmið Hinsegin daga sé margþætt. „Grunnmarkmiðið er að auka sýnileika og þegar við erum mörg saman þá verður röddin okkar sterkari, það er einfaldlega þannig. Markmiðið er líka að ná hinsegin samfélaginu saman, láta sjá sig og vera ekki í þeim felum sem fólk hefur gjarnan verið í þó það sé komið út úr skápnum.“
„Að sama skapi, eins og nafnið gefur til kynna, er þetta gleðihátíð. Við erum að gleðjast yfir þeirri stöðu sem er hér, þeim réttindum sem hafa áunnist og þeim árangri sem hefur náðst á síðustu árum sem er auðvitað gríðarlega mikill og margt sem við getum verið þakklát fyrir,“ segir Gunnlaugur.
„En þó þetta séu gleðidagar þá eru þetta líka sannarlega baráttudagar og við erum að minna á það sem betur má fara. Við erum að halda umræðunni gangandi, minna á að við þurfum að halda áfram að berjast, markmiðinu er ekki náð fyrr en að allir eru jafnir og það vantar enn upp á löggjöf. Það var viðtal í Mannlífi í gær þar sem talað var við transkonu og homma sem hafa bæði orðið fyrir líkamlegu ofbeldi á Íslandi mjög nýlega“.
Hann segir jafnframt að skipuleggjendur Hinsegin daga líti svo að á þau sendi einnig skilaboð út fyrir landsteinana og berjist fyrir hönd þeirra sem ekki mega það, því gleðiganga af þessu tagi sé ekki sjálfsagður hlutur
„Nei, því miður, þá er það svo. Það eru ennþá dæmi um að það séu lögbönn sett á slíkar hátíðir og þessa baráttu. Við þurfum ekki að líta langt til þess að finna lönd þar sem að umræðan um samkynhneigð er ólögleg, hvað þá umræðan um önnur málefni samanber t.d. intersex fólk, alla þá baráttu ólíkra kynja og kynhneigða sem er verið að vinna hér,“ segir Gunnlaugur að lokum.