Rauðhólarnir eru um margt einstakt svæði,“ segir Ágúst H. Bjarnason grasafræðingur. Myndir sem Eggert Jóhannsson, ljósmyndari Morgunblaðsins, tók af hinni sérstæðu gígaþyrpingu sem er í jaðri Heiðmerkur skammt ofan við borgina hafa vakið mikla athygli. Litbrigði jarðar á þessum slóðum eru einstök og falleg, jafnvel þótt malartekja hafi spillt svæðinu verulega.
Það var á stríðsárunum sem byrjað var að taka rauðamöl úr hólunum og var hún um langt árabil notuð meðal annars við gerð Reykjavíkurflugvallar og í húsgrunna til dæmis í austurhluta borgarinnar. Svo fór hins vegar að fólki varð sérstaða Rauðhólanna ljós og voru þeir friðlýstir árið 1961 og gerðir að 130 ha. fólkvangi árið 1974.
Gervigígarnir í Rauðhólum mynduðust fyrir meira en 5.000 árum þegar Elliðaárhraun rann yfir votlendi og út í vatn sem hvellsauð undir glóandi hrauninu. Með gufusprengingum og -gosi mynduðust gjallgígarnir sem margir voru mokaðir út. Þó eru nokkrir eftir, einkum nyrst á svæðinu og næst Suðurlandvegi.
Sjá samtal við Ágúst H. Bjarnason um Rauðhóla í heild í Morgunblaðinu í dag.