Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er reynslunni ríkari eftir ferð um Íslendingaslóðir í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum og Manitoba í Kanada um liðna helgi. „Það var merkilegt að heimsækja þessi svæði og finna þetta mikla vinarþel hjá þeim sem halda utan um samskipti Vestur-Íslendinga og Íslendinga,“ segir hún.
„Það er svo mikill einlægur vilji til þess að rækta samskiptin og það var magnað að skynja þennan mikla áhuga.“ Forsætisráðherra var sérstakur heiðursgestur á Íslendingahátíðunum í Mountain og á Gimli. Hún segir að þrátt fyrir að hafa lesið um Vestur-Íslendinga og horft á sjónvarpsþætti um vesturfarana hafi hún ekki litið á sig sem sérfræðing í málum heimamanna, en heimsóknin hafi kennt henni margt, ekki síst um hvað varð um vesturfarana.
„Ég lærði í skóla að fjöldi fólks fór frá Íslandi vegna ýmissa erfiðleika og nú hef ég lært heilmikið um hvað síðan gerðist.“
Katrín segist finna fyrir vaxandi áhuga á Íslandi á umræddum samskiptum. Vesturfaraþættirnir hafi vakið mikla athygli á byggðum Vestur-Íslendinga og fjölmargar ferðir Íslendinga á þessar slóðir árétti áhugann. Í því sambandi bendir hún á að á annað hundrað Íslendingar hafi verið í skipulögðum ferðum vestra um helgina. „Í ferðinni sagði ég í svolitlum hálfkæringi að allir Íslendingar ættu leynda ósk um að fara á þessar slóðir og ég held að í huga margra sé þær séu langþráður áfangastaður.“
Mikil rækt hefur verið lögð við íslenska menningu í Manitoba. Í því sambandi má nefna að vesturíslenska blaðið Lögberg Heimskringla er það blað sem hefur verið gefið út lengur en nokkurt annað blað þjóðarbrots í Kanada og íslenskudeild Manitoba-háskóla í Winnipeg er sú eina sinnar tegundar utan Íslands. Þjóðræknisfélag Íslendinga, sem fagnar 100 ára afmæli næsta vor með sérstakri afmælishátíð í Winnipeg, heldur úti víðtækri starfsemi í mörgum félögum víðs vegar í Kanada og Bandaríkjunum og félagið Núna now sér um samskipti listafólks af íslenskum ættum og á Íslandi.
„Öll svona samskipti eru auðvitað brothætt og ekki þarf nema að ein kynslóð detti út til þess að þau séu í hættu,“ segir Katrín. „Íslenskudeild Manitoba-háskóla skiptir til dæmis gríðarlega miklu máli til þess að halda þessum samskiptum lifandi, því fólk týnir niður tungumálinu, þó að merkilegt sé að heyra hvað margir hafa haldið í íslenskuna, einstök orð og menningarfyrirbæri. Rannsóknir hafa enda sýnt fram á að velferð fólks sé meiri ef það ræktar bæði móðurmálið og málið í nýja landinu. En það er merkilegt hvað margt fólk vestra hefur haldið mikið upp á tungumálið og samskiptin við Ísland þrátt fyrir að vera í allt öðrum heimi og lifa ólíku lífi.“
Íslensku opinberu gestirnir komu víða við og Katrín hitti ótrúlega marga í þessari annars stuttu ferð. Hún segir að margir hafi rætt um hvernig samskiptin yrðu í framtíðinni, á hverju ætti að byggja fyrir utan grunninn.
„Ég held að íslenskudeildin skipti þar miklu máli og mikilvægt er að vera með nýjar rannsóknir eins og til dæmis rannsókn Magnúsar Þórs Þorbergssonar á leiklistarhefð Vestur-Íslendinga. Mér fannst líka áhugavert að hitta Guy Madden og heyra hvað hann er að gera, en vegna tengslanna nýtir hann Ísland sem sögusvið fyrir sig. Hann vinnur ekki endilega með fortíðina heldur skapar eitthvað nýtt úr efniviðnum. Það er mikil áskorun.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 10. ágúst.