Lögreglan á Norðurlandi eystra áætlar að svipaður fjöldi gesta hafi sótt hátíðina Fiskidaginn mikla á Dalvík um helgina og í fyrra, eða um 30.000 gestir. Lögreglan hafði í mörgu að snúast og var ölvun allmikil.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.
„Lögreglan hefur ekki tölur yfir fjölda gesta en hefur þó tilfinningu fyrir því að nú hafi verið síst færri gestir en í fyrra, þegar áætlað var að yfir 30.000 manns hefðu sótt viðburðinn.
Það óhapp varð við flugeldasýninguna að eldur komst í nokkra hjólbarða utan á hafnargarðinum, með tilheyrandi reykjarmekki, en slökkvilið var fljótt að drepa eldinn og stafaði ekki hætta af þessu fyrir fólk,“ segir lögrelgan.
Lögreglan bendir á að eftir flugeldasýninguna megi segja að vegurinn milli Dalvíkur og Akureyrar hafi fyllst af samfelldri bílaröð. „Það er mat okkar að umferðarstýring hafi gengið betur núna en stundum áður og að þolinmæði, kurteisi og skilningur ökumanna hafi einnig verið til fyrirmyndar,“ skrifar lögreglan.
Þá greinir lögreglan frá því, að hún hafi haft í mörgu að snúast, enda megi búast við því þar sem svona margt fólk safnast saman.
„Ölvun var allmikil og fjölbreytt mál sem komu á borð lögreglu. Alls eru bókuð um 150 verkefni í dagbók okkar embættis frá því á föstudag. Þar af eru 11 hraðakstursmál, 6 vímuakstursmál, 5 minni háttar fíkniefnamál, 6 kærur vegna brota á áfengislögum og nokkur mál vegna slagsmála, pústra og minni háttar skemmdarverka og þjófnaða. 6 gistu fangageymslur og þá aðallega vegna ölvunar.
Það er jákvætt að engin alvarleg umferðaróhöpp eða slys eru skráð á þessum tíma og engin alvarleg líkamsárás,“ skrifar lögreglan.