Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ætlar að hlaupa hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu nú á laugardaginn. Hann greinir frá þessu á Facebook-síðu forsetaembættisins í dag. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Guðni hleypur í Reykjavíkurmaraþoninu, heldur hefur hann hlaupið hálft maraþon síðustu 13 ár í röð og þá yrði þetta samtals í 16. skipti sem hann tæki þátt, samkvæmt upplýsingum úr afrekaskrá Frjálsíþróttasambands Íslands.
Mbl.is sagði frá því um helgina að Guðni hefði fengið áskorun um að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu, en það var Tinna Laufey Ásgeirsdóttir prófessor sem skoraði á Guðna.
Þetta er þó ekki eina hlaup Guðna í sumar, því hann hljóp hálft maraþon í Jökulsárhlaupinu núna um helgina og segir hann í færslunni að hann ætli að klára seinni helming maraþonhlaupsins um næstu helgi með Reykjavíkurmaraþoninu.
Besti tími Guðna í hálfu maraþoni í Reykjavíkurmaraþoninu var árið 2014, en þá hljóp hann á 1:39:58, en flestir tímar hans hafa verið frá 1:40 til 2:00 klst.