Starfsmenn stefna Hval hf.

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf.
Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta eru mál sem eru með nákvæmlega sama hætti og málið sem vannst fyrir Hæstarétti. Þau eru byggð á sama grunni; orðalagi í ráðningasamningum og vikulegum frídegi sem Hæstiréttur er búinn að staðfesta. Ég geri fastlega ráð fyrir því að við munum vinna þessi mál líka,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. Alls níu fyrrverandi starfsmenn Hvals hf. hafa stefnt fyrirtækinu fyrir héraðsdóm.

Af málunum níu fer Verkalýðsfélag Akraness með sjö þeirra, en hin tvö í gegnum önnur stéttarfélög.

Vilhjálmur Birgisson.
Vilhjálmur Birgisson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hval hf. var gert að greiða fyrrverandi starfsmanni sínum rúma hálfa milljón króna vegna brota á kjarasamningi í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 14. júní.

„Við fórum með þetta eina mál á sínum tíma sem prófmál og núna erum við að reyna að fara með þessi sjö mál sem munu þá endurspegla allan fjöldann. Hjá okkur eru þetta tæplega 100 manns. Fordæmisgildi þessa dóms getur numið allt að 250 til 300 milljónum króna,“ segir Vilhjálmur.

Málið höfðaði starfsmaðurinn vegna launa sem ekki voru í sam­ræmi við kjara­samn­ing Samtaka atvinnulífsins og Starfs­greina­sam­bands­ins, sem Verka­lýðsfé­lag Akra­ness á aðild að, en hann starfaði í hval­stöðinni sum­arið 2015.

Hæstirétt­ur komst að þeirri niður­stöðu í dómn­um að hvíld­ar­tími starfs­manns­ins hafði verið skert­ur og hon­um ekki tryggður einn viku­leg­ur frí­dag­ur. Þó að ekki sé gert ráð fyr­ir að slík­ur frí­dag­ur sé launaður beri vinnu­veit­anda að tryggja þessa lág­marks­hvíld. Þar sem Hval­ur hf. hafi ekki gert það beri að greiða dag­vinnu­laun vegna þeirra. Með öðrum orðum fái starfs­menn átt­unda dag­inn greidd­an vinni þeir sjö daga sam­fleytt.

Dómurinn fordæmi fyrir hundrað starfsmenn

Í kjölfar dómsins sagði Vilhjálmur að hátt í hundrað starfsmenn Hvals hf. á vertíðum 2013-2015 hefðu fengið sams konar samning og að eðlilegast væri að Hvalur hf. myndi endurreikna laun þeirra en að hann teldi líklegra að Hvalur myndi láta reyna á málin fyrir dómstólum.

Vilhjálmur segir málin sjö, sem tekin verða fyrir 4. september hjá Héraðsdómi Vesturlands, ná til allra þeirra félagsmanna sem hafa starfað undir ofangreindum kjarasamningum.

„Þetta nær til hundrað manns í heildina. Það eru 97 félagsmenn okkar sem heyra undir þessa kröfu og síðan förum við núna fyrir héraðsdóm með þessi sjö mál og það er gert með þessum hætti til að klára málið. Það er erfitt að flytja hundrað mál.“

Í kjölfar dómsins 14. júní fullyrti Vilhjálmur að starfsfólki Hvals hf. hafði verið meinað að vera í VLFA og sagði að um grófar hefndaraðgerðir væri að ræða.

Aðspurður segir Vilhjálmur að það mál verði tekið fyrir hjá félagsdómi 26. ágúst.

„Við stefndum því máli fyrir félagsdóm vegna þess að hann [Kristján Lofts­son, for­stjóri Hvals] meinaði starfsfólki sínu að vera hjá okkur. Það var gróft brot á lögum um stéttarfélög og það mál er fyrir félagsdómi en það virðist sem svo að hann sé að sjá að sér.

Okkur sýnist hann vera að bakka með það mál því það eru byrjuð að berast til okkar félagsgjöld og starfsmenn hafa mátt velja. Við erum að skoða þessi mál með okkar lögmanni og bíðum eftir greinargerð frá lögmönnum Hvals hf. Þeir hafa ekki óskað eftir því að við drögum málið til baka en það liggur fyrir að félagsgjöld tæplega fimmtíu manns eru farin að berast til okkar þannig við erum að reyna að ná utan um þetta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert