Óljóst hver á rústir herstöðvar

Straumnesfjall.
Straumnesfjall. LJósmynd/Mats Vibe Lund

Fasteignir á Straumnesfjalli, sem eru rústir herstöðvar, eru ekki skráðar í fasteignaskrá og því er eignarhald þeirra ekki ljóst. Þetta kemur fram í svari Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, við fyrirspurn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttir, þingkonu VG.

Fram kemur í svari ráðherra að Sölunefnd varnarliðseigna hafi yfirtekið allar eignir varnarliðsins á Straumnesfjalli í lok árs 1962. Í kringum 1970 voru einhver hús, jafnvel öll, seld einkaaðila sem nýtti eitthvað úr þeim.

Sumarið 1991 var ráðist í aðgerðir til að fjarlægja lauslegt rusl og megnandi efni úr herstöðvarústunum og umhverfi þeirra. Björgunarsveitir á Vestfjörðum sáu um hreinsunina sem stjórnvöld greiddu. Bandaríkjamenn lögðu til þyrlur, áhöfn og eldsneyti til að flytja menn og tæki upp á Straumnesfjall.

Lilja spyr hvernig ráðherra telji að bregðast eigi við hrörlegum húsum sem enn standa á fjallinu og geti skapað hættu fyrir ferðamenn. Guðmundur segir það sérstakt athugunarefni hvort umrædd mannvirki kunni að skapa hættu fyrir ferðamenn og hver eigi að bera kostnað af mögulegum aðgerðum. 

Í ljósi sögu mannvirkja á Straumnesfjalli í Hornstrandafriðlandi telur ráðherra ástæðu til þess að kostnaður og þörf á nauðsynlegum aðgerðum til þess að stemma stigu við slysahættu og mengun á svæðinu verði endurmetin, nú tæpum þrjátíu árum eftir að það var síðast gert.

Ráðherra hyggst fela Umhverfisstofnun, sem hefur umsjón með friðlandinu, það verkefni í samvinnu við landeigendur. Í framhaldi af niðurstöðu þeirrar vinnu verði skoðað hvort og hvernig aðgerðir verði fjármagnaðar.

Svar ráðherra við fyrirspurn Lilju.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert