Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, segist ekki ætla að tjá sig efnislega um bréf sem Helga Björg Ragnarsdóttir, skrifstofustjóri borgarstjóra, sendi forsætisnefnd. Helga fjallar þar um alvarleg og meiðandi ummæli borgarfulltrúa en umræddur borgarfulltrúi er ekki nefndur á nafn.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Reykjavíkurborg í síðasta mánuði til að greiða bætur vegna slæmrar framkomu skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Auk þess var skrifleg áminning sem Reykjavíkurborg hafði veitt starfsmanninum ógilt.
Vigdís segir að hún muni leggja fram nýjar upplýsingar í málinu á fundi borgarráðs á morgun.
Helga sagði í bréfinu til forsætisnefndar að í dómi héraðsdóms komi hvergi fram að um einelti hafi verið að ræða. Hún óskar einnig eftir því að tekið verði til skoðunar hvort tilefni sé til að leita álits siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga á ummælum einstakra borgarfulltrúa um hana í umræðum um dómsmálið.
„Ég lýsi yfir mikilli undrun á því að stjórnsýsla Reykjavíkur skuli bregðast svona við hinum alvarlega dómi héraðsdóms að beina athyglinni að kjörnum fulltrúa og nánast hóta mér málsókn í stað þess að líta í eign barm og laga málin innanhúss,“ segir Vigdís og bætir við að málið sé orðið að stríði milli stjórnsýslu borgarinnar og kjörins fulltrúa.
„Þessi dagur í dag hefur verið ævintýralegur. Engum okkar datt í hug að dagurinn yrði með þessum hætti.“