„Ég var búin að finna fyrir þessu á eigin skinni í öllum liðum sem ég hef æft með. Það er enn mikið um misrétti í knattspyrnu,“ segir Margrét Björg Ástvaldsdóttir, félagsfræðingur og knattspyrnukona, um tildrög þess að hún ákvað að gera rannsókn á því hvort og hvernig knattspyrnufélög mismuni kynjunum þegar umgjörð er annars vegar.
Margrét flutti erindi á ráðstefnunni „Gender and Sport“, eða kyn og íþróttir, sem hófst í gær. „Með umgjörð á ég við ákveðin þemu. Það eru æfingatímar, klefamál, aðgengi að sjúkraþjálfara, hvort liðið sé með liðsstjóra og fleira,“ segir hún í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Þessi fleiri þemu eru hvort leikmenn fái að leiða börn inn á völlinn, æfingafatnaður, þvottur á æfingafatnaði, fjáraflanir og það hvernig fyrirliðarnir upplifa umgjörðina.